Hátíðarútgáfa bókarinnar Íslenskir fuglar eftir Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826-1907) sem frumsýnd var á Benediktsmessu 21. mars er dýrasta bókin á íslenskum bókamarkaði um þessar mundir. Hún kostar fullu verði 230.000 krónur og fæst aðeins hjá útgefanda, bókaútgáfunni Crymogeu.
Alls er bókin gefin út í 100 tölusettum eintökum. Bókin er handinnbundin í sauðskinnsleður sem er sérstaklega sútað fyrir þetta verkefni hjá skinnaverkun Loðskinns á Sauðárkróki. Þau eintök sem pöntuð hafa verið verða afhend kaupendum nú í lok aprílmánaðar. Alls er það helmingur upplagsins, 50 eintök, samkvæmt tilkynningu.
„Bókin er endurgerð handrits Benedikts Gröndal í fullri stærð og með viðauka þar sem allur handskrifaður texti Benedikts er settur með nútímaletri auk skýringa fuglafræðinganna Ævars Petersens og Kristins Hauks Skarpéðinssonar auk eftirmála eftir Kristin. Bókin er gefin út í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands sem hefur handritið í sinni vörslu. Það geymir teikningar og skrautritaðan texta Benedikts Gröndal þar sem fjallað er um allar þær fuglategundir sem Benedikt vissi til að sést hefðu á Íslandi um aldamótin 1900,“ segir í tilkynningu.