Innanríkisráðherra segist líta svo á, að fjármálafyrirtæki muni fresta nauðungarsöluaðgerðum og aðfarargerðum í þeim tilvikum sem lán falli undir dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar síðastliðnum. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn á Alþingi.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði innanríkisráðherra út í gengistryggð lán og áhrif ofangreinds dóms. Ráðherrann er meðal annars spurður að því hvort það komi til greina að stöðva innheimtu gengistryggðra lána þar til fenginn er úrskurður dómstóla um helstu álitaefni er varða uppgjör þessara lána.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, vísar til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins sem heimilar samráð fjármálastofnana við greiningu á málum í framhaldi af dómnum. „Eitt af skilyrðum þess að umrætt samstarf megi eiga sér stað er að lánveitendur sem aðild eiga að samstarfinu fresti öllum fullnustuaðgerðum sem byggjast á lánum sem ljóst er að falli undir fyrrgreindan dóm Hæstaréttar. Lítur ráðherra svo á að fjármálafyrirtæki muni fresta nauðungarsöluaðgerðum og aðfarargerðum í þeim tilvikum sem falla undir framangreinda lýsingu Samkeppniseftirlitsins.“
Ráðherra er einnig spurður út í hvort hann hyggist leggja fram lagafrumvarp til að tryggja flýtimeðferð á dómsmálum tengdum helstu álitaefnum sem varða dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána. Ögmundur segir að ekki þurfi að gera sérstaka lagabreytingu. Ekkert standi í vegi fyrir því að aðilar mála ásamt dómara málsins og eftir atvikum umboðsmanni skuldara komi sér saman um að ákveðin mál, sem sannarlega eru fordæmisgefandi fyrir mörg mál, verði rekin hratt í gegnum dómskerfið.
Þá vísar ráðherrann aftur í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, en samstarf fjármálastofnana tekur meðal annars til vals á málum sem hentugust eru til þess að bera undir dómstóla með álitaefni sem nauðsynlegt er að láta reyna á fyrir dómi og vals á málsástæðum sem reyna þarf á í dómsmálum í því skyni að eyða sem fyrst allri óvissu.