Margrét Örnólfsdóttir fær barnabókarverðlaun

Margrét Örnólfsdóttir.
Margrét Örnólfsdóttir.

Tvær unglingasögur fengu barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur í dag er þau voru afhent í 40. sinn. Margrét Örnólfsdóttir fékk verðlaunin fyrir bestu frumsömdu bókina, Með heiminn í vasanum, og Magnea J. Matthíasdóttir fyrir bestu þýðingu á barna- og unglingabók,  Hungurleikunum eftir Suzanne Collins.  

Í umsögn valnefndar um verðlaunabókina Með heiminn í vasanum segir m.a.: Með skýrri persónusköpun, hlýju og kímni er lesandann leiddur inn í spennandi frásögn úr ólíkum heimum barna og unglinga. Drifkraftur sögunnar er baráttan fyrir betra lífi og þrá sögupersóna eftir því að vera samvistum við þá sem þær elska. Í sögunni er tekið á málefnum sem koma okkur öllum við; afleiðingum græðgi,  barnaþrælkunar og mannréttindabrota.

Í umsögn um þýðingu barnabókarinnar Hungurleikana segir m.a. :
Þýðing Magneu J. Matthíasdóttur er fumlaus og laus við tilgerð og talar beint til krefjandi lesendahóps. Í sögunni hverfur lesandinn  inn í heim sem er fjarlægur en samt svo nálægur, þökk sé vel heppnaðri þýðingu Magneu.

Jón Gnarr borgarstjóri og Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, afhentu barnabókaverðlaunin síðdegis við hátíðlega athöfn í Höfða að viðstöddum fjölmörgum gestum. Borgarstjóri sagði m.a. í ávarpi sínu að fátt væri jafn dýrmætt og þroskandi fyrir börn og góðar sögur og fólk sem segir þeim sögur. „Markviss lestur fyrir börn og með börnum er þeim veganesti sem kennir þeim gildi þess að vera manneskja og gefa af sér – gildi þess að halda sagnakeðjunni lifandi.“

Meðal gesta við verðlaunaafhendinguna voru Jenna Jensdóttir sem fyrst fékk þessi verðlaun fyrir framlag sitt til barnabókmennta og sigurvegarar í Stóru upplestrarkeppninni sem lásu upp úr verðlaunabókunum. Þá léku ungir hljóðfæraleikarar úr Tónlistarskóla Reykjavíkur  fyrir gesti.

Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs eiga sér langa sögu.  Þau þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á gildi góðra bókmennta í uppeldisstarfi og á metnaðarfullri útgáfu barnabóka.  Valnefnd var að þessu sinni skipuð Margréti Kristínu Blöndal formanni, Líf Magneudóttur og Guðrúnu Höllu Sveinsdóttur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert