Maðurinn sem framseldur var til Íslands í dag frá Sviss og grunaður er um aðild að úraráninu í verslun Michelsen í október, var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. apríl.
Hann var handsamaður í Sviss um miðjan mars en kom til landsins í dag með vél frá Kaupmannahöfn. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Einn maður hefur hlotið 5 ára fangelsisdóm fyrir ránið. Sá var gripinn skömmu eftir ránið með þýfið, úr að verðmæti um 50 milljónir króna. Þrír menn komust úr landi og var einn þeirra framseldur til landsins í mars og situr í gæsluvarðhaldi.
Fjórði maðurinn er í heimalandi sínu, Póllandi. Yfirvöld hyggjast biðja um að réttað verði yfir honum þar, þegar málaferlum gegn mönnunum tveimur, sem nú sitja í varðhaldi, er lokið.