Taka þarf fyrir sprautugjafir til barna

Sprautur á víðavangi.
Sprautur á víðavangi. mbl.is/Ómar

Taka þarf fyrir það að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn gefi ungum börnum sprautur í verðlaun eftir heimsókn til þeirra. Þetta segir Herdís L. Storgaard, verkefnastjóri slysavarna barna hjá Slysavarnahúsinu, sem vinnur að því að senda til réttra aðila erindi þess efnis.

Foreldrar hafa haft samband við Herdísi vegna þessa og bent á að þetta kunni að orka tvímælis sökum þess að á sama tíma eru börn vöruð við því að koma við sprautur sem þau finni á víðavangi. Herdís segist geta tekið undir þessi sjónarmið og sé rétt að taka fyrir slíkar sprautugjafir. „Þetta er að sjálfsögðu gert af góðum hug, að gefa börnum eitthvað sem þau geta leikið sér með að meinlausu. Hins vegar er önnur hlið á málinu sem yfirleitt er ekki hugsað út í.“

Herdís segir að þegar börnum séu gefnar sprautur í verðlaun geta orðið til þau hugrenningatengsl að um sé að ræða leikföng. Því aukist líkurnar til muna á að börnin taki upp sprautur sem skildar hafa verið eftir á víðavangi og geti verið hættulegar.

Nágrannavarslan mikilvæg í baráttunni

Nokkuð hefur verið tilkynnt um það að undanförnu að sprautunálar finnist í höfuðborginni. Herdís segir að eflaust leynist víða enn notaðar sprautur, þótt snjórinn sé horfinn sé hreinsunarstarf stutt á veg komið og lítið hefur verið hreinsað af laufblöðum og úr blómabeðum. Þar undir geti því leynst hættulegar og notaðar nálar.

Eitt það sem Herdís bendir á að hægt sé að nota í baráttunni er að virkja nágrannavörsluna betur í þessum efnum. Innan nágrannavörslunnar er oft gott tengslanet og góð tengsl við lögregluna. Hafa beri í huga að sprautufíklar fari víða til að athafna sig en noti á stundum sama staðinn í einhvern tíma.

Lögregla hafi í flestum tilvikum upplýsingar um hvar sprautufíklar haldi sig á hverjum tíma og því ætti að vera hægt að koma þeim upplýsingum áleiðis til nágrannavörslunnar sem svo getur þá aðvarað foreldra ef um barnvænt svæði er að ræða, eða farið sjálf á svæðið og séð til þess að engar nálar séu þar.

Þá bendir Herdís á að fyrir nokkrum árum fékk hún landlæknisembættið til að gera leiðbeiningar fyrir fólk sem finnur sprautunálar á víðavangi um hvernig megi taka á vandamálinu á öruggan hátt. Hún segir þær leiðbeiningar í fullu gildi og má finna þær hér.

Herdís Storgaard.
Herdís Storgaard. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Sprautunálar
Sprautunálar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert