Salan á Perlunni var rædd á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur sem lauk á sjötta tímanum í dag. Þar voru engar ákvarðanir teknar og ekkert liggur fyrir um framhald málsins.
Þetta segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR.
„Það voru lögð fram gögn og erindi frá bjóðendum rædd, en næstu skref liggja ekki fyrir að svo komnu máli,“ sagði Eiríkur í samtali við mbl.is.
Fundir stjórnar Orkuveitunnar eru að jafnaði haldnir einu sinni í mánuði, en oftar ef þurfa þykir. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær sala Perlunnar verður rædd næst innan stjórnarinnar.