Perlan rædd á fundi OR í dag

Perlan
Perlan mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Salan á Perlunni verður rædd á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur í dag. Staðan verði metin á fundinum í dag og næstu skref skoðuð, að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa OR.

Hópur fjárfesta sem gerði kauptilboð í Perluna hefur fallið frá tilboði sínu. Garðar K. Vilhjálmsson lögmaður segir í yfirlýsingu fyrir hönd hópsins að borgaryfirvöld séu að eyðileggja söluferli Perlunnar.

Skrifað var undir viljayfirlýsingu við hópinn í desember og var honum gefinn frestur til 31. mars til að falla frá fyrirvörum í tilboði sínu, sem hljóðaði upp á 1.688,8 milljónir króna. Hópurinn fór fram á framlengingu á viljayfirlýsingunni, en hefur nú ákveðið að hætta við kaupin.

Sex tilboð bárust í Perluna þegar hún var auglýst til sölu í haust. Hæsta tilboðið átti hópur innlendra fjárfesta sem starfað hafa á sviði ferðaþjónustu og húsbygginga. Samkvæmt fyrirvörum við tilboðið var gert ráð fyrir að byggt yrði við Perluna, en það var borgarinnar að taka ákvörðun um hvort það verði heimilað.

Að sögn Eiríks höfðu tilboðsgjafarnir beðið um frest til að aflétta fyrirvörum á tilboðinu í Perluna og sú ósk var komin á dagskrá fundarins sem verður haldinn í dag. Því var málið komið á dagskrá áður en yfirlýsing um að hætt væri við kaupin var send út. Staðan verði metin á fundinum í dag og næstu skref skoðuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert