Segir borgina hafa klúðrað sölunni

mbl.is/Hjörtur

„Með óvönduðum vinnubrögðum hefur meirihlutinn klúðrað söluferlinu og valdið Orkuveitunni og Reykjavíkurborg álitshnekki,“ segir í bókun Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa sjálfstæðismanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, en eins og greint var frá á mbl.is í morgun hefur hópur fjárfesta sem hugðist kaupa Perluna hætt við kaupin. Fundað var um málið í stjórn Orkuveitunnar fyrr í dag.

Fram kemur ennfremur í bókun Kjartans að hann átelji „harðlega óviðunandi vinnubrögð borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins vegna sölu Perlunnar. Vegna umfangs og eðlis málsins var ljóst frá upphafi að vinna þyrfti að framgangi þess í náinni samvinnu Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar enda um stórt mál að ræða, sem snertir skipulag, umhverfismál og ferðaþjónustu.“

Þá segir að annað verði ekki séð en að hæstbjóðendur, það er áðurnefndur hópur fjárfesta, hafi unnið að málinu í góðri trú í samræmi við viljayfirlýsingu sem undirrituð var af stjórnarformanni og forstjóra Orkuveitunnar í október síðastliðnum. Málið hafi hins vegar tekið nýja stefnu hinn 25. janúar síðastliðinn þegar skipulagsráð Reykjavíkur hafi samþykkt að hefja undirbúning að opinni hönnunarsamkeppni að framtíðarnýtingu Öskjuhlíðar.

Bókunin í heild:

„Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins átelur harðlega óviðunandi vinnubrögð borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins vegna sölu Perlunnar. Vegna umfangs og eðlis málsins var ljóst frá upphafi að vinna þyrfti að framgangi þess í náinni samvinnu Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar enda um stórt mál að ræða, sem snertir skipulag, umhverfismál og ferðaþjónustu. Með óvönduðum vinnubrögðum hefur meirihlutinn klúðrað söluferlinu og valdið Orkuveitunni og Reykjavíkurborg álitshnekki.

Ekki verður annað séð en að hæstbjóðandi hafi unnið að málinu í góðri trú í samræmi við þá viljayfirlýsingu, sem undirrituð var af stjórnarformanni og forstjóra Orkuveitunnar í október sl. Málið tók síðan nýja stefnu 25. janúar þegar skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti að hefja undirbúning að opinni hönnunarsamkeppni að framtíðarnýtingu Öskjuhlíðar. Hæstbjóðandi hefur nú fallið frá tilboði sínu og í yfirlýsingu gagnrýnt harðlega þá stjórnsýslu, sem stunduð er hjá Reykjavíkurborg. M.a. kemur fram að hæstbjóðandinn leitaði ítrekað eftir fundi með formanni borgarráðs Reykjavíkur, sem jafnframt er formaður eigendanefndar Orkuveitunnar, en án árangurs.

Um leið og tilboð í Perluna voru opnuð 18. október 2011, kom í ljós að þau voru öll með fyrirvara um að heimiluð yrði frekari uppbygging við þetta þekkta kennileiti borgarinnar, sem jafnframt er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Eðlilegt hefði verið að borgaryfirvöld hefðu þá þegar tekið skýra afstöðu til hugmynda hæstbjóðanda um uppbyggingu á svæðinu, m.a. með tilliti til stefnu borgarinnar í skipulagsmálum, ferðaþjónustu og umhverfismálum en ekki síður í ljósi lögfræðilegra álitaefna varðandi útboðið.

Ekkert af þessu var gert en meirihlutinn kaus hins vegar að vinna að málinu mánuðum saman án þess að halda stjórn Orkuveitunnar upplýstri með tilhlýðilegum hætti. Undirrituðu forstjóri og stjórnarformaður m.a. viljayfirlýsingu um framgang málsins, sem fól í sér skuldbindingar gagnvart hæstbjóðanda, eftir að hann hafði kynnt þeim hugmyndir sínar um uppbyggingu á lóðinni. Var umrædd viljayfirlýsing ekki lögð fram á stjórnarfundi OR  fyrr en 21. desember eftir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna höfðu sérstaklega óskað eftir upplýsingum um málið.

Á þeim stjórnarfundi flutti undirritaður tillögu um að málinu yrði komið í eðlilegan farveg í samstarfi við borgarlögmann og önnur embætti borgarinnar, sem ljóst væri að umrædd uppbyggingaráform heyrðu undir. Meirihluti stjórnar OR felldi tillöguna og framlengdi þannig það sleifarlag, sem hefur því miður einkennt meðferð málsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert