Katrín Jakobsdóttir mun taka þátt í fjöldasöng á Youngstorgi í Ósló í hádeginu ásamt menningarmálaráðherrum hinna Norðurlandanna og þúsundum Norðmanna. Verður sungið vinsælt þjóðlag sem Breivik segist ekki þola þar sem það sé áróður fyrir marxisma.
„Við erum hér í litlum minibus á leiðinni,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is rétt fyrir kl. 10 í morgun, 12 að staðartíma. „Við vorum á reglubundnum fundi og norski ráðherrann upplýsti okkur um að fólk ætlaði að sameinast og syngja saman barnalag sem Anders Behring Breivik lýsti sem heilaþvotti á norskum börnum því þar er sungið að öll börn skuli lifa saman í friði. Hann lítur á þetta sem heilaþvott og við lítum svo á að við séum að styðja við fjölmenningarstefnuna sem er eitt af okkar stóru málum í norrænni menningarpólitík. Við menningarmálaráðherrarnir ætlum að mæta og syngja með. Við erum hvert úr sínum flokki þannig að það er þverpólitísk samstaða hér.“
Katrín er stödd í Noregi á fundi með norrænu ráðherrunum. Hittust menntamálaráðherrarnir í gær og menningarmálaráðherrarnir í dag.