Þorpið fóstraði mig

Bubbi við bæinn Meðalfell í Kjós en þar var verið …
Bubbi við bæinn Meðalfell í Kjós en þar var verið að grisja. Bubbi býr sjálfur við Meðalfellsvatn. mbl.isGolli

„Við erum þjóð sem er alltaf að segja sögur og á þessari plötu er ég að segja sögu,“ segir Bubbi Morthens í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu í dag, um nýja plötu sína, Þorpið, en honum til aðstoðar á plötunni eru Sólskuggarnir og Kristjana Stefánsdóttir. Spurður um tónlistina á plötunni segir Bubbi: „Þarna er ekki nýtt hjól undir vagninum heldur er ég að sækja aftur í gamlan arf sem er þjóðlagatónlistarhefðin. Popptónlist er skemmtileg en hún er eins og skyndibiti, kemur og fer. Þjóðlagatónlistin, kántrítónlistin og blúsinn er varanlegri tónlist. Þetta er svipað því að við segðum að í bókmenntunum væri krimminn eins og poppið, hann kemur og fer.

Þetta er plata sem fjallar um þorpið og bregður upp mynd af veröld sem var. Ég held að við þekkjum flest hver þá sögu sem ég er að segja, ef ekki af eigin raun þá af fréttum. Nýlega var sagt frá því í fréttum að innan 70 ára gætu Vestfirðir horfið sem samfélag manna. Það er hræðilega stuttur tími í það. Á sama tíma eru önnur þorp með hælinn í sverðinum og spyrna við eins og Siglufjörður. Austfirðirnir njóta svo góðs af álverinu, bræðslunni á Neskaupsstað og ferjunni á Seyðisfirði. Engu að síður eru þorpin ekki bara í tilvistarkreppu heldur í vondum málum. Þetta fyrirbæri kvótinn, sem barist er um á Íslandi í dag, er einhvers konar skrímsli sem hefur bæði gefið og tekið. Kvótinn er ekki bara alslæmur en hann er heldur ekki algóður.

Þorpið er hryggjarstykkið á þessari plötu en svo eru þar litlar hliðarsögur, eins og Skipstjóravalsinn þar sem ég syng um gamlan skipstjóra sem er svo glaður vegna þess að kossar konu hans eru jafnsætir og þegar þau kynntust. Ég syng um litla stelpu sem fæddist látin og ég læt hana segja að þótt veröld hennar hafi ekki verið stór hafi hún verið hjartsláttur móðurinnar. Ég er að syngja um þetta.“

Hnignun þorpsins

Þér þykir afar vænt um þorpið sem fyrirbæri.

„Já. Einhvern veginn fóstraði þorpið mig. Ég fór svo ungur út á land, þá þótti ekkert merkilegt að fimmtán ára strákar kæmu í þorp að vinna og þá þóttu menn á höfuðborgarsvæðinu ekki heldur vera að taka niður fyrir sig að fara út á land að vinna. Þetta var ósköp einfalt. Maður fór í símaskrána og fann stað úti á landi, hringdi í plássið og spurði hvort það vantaði ekki duglegan mann í vinnu. Svo mætti maður.

Bolungarvík var fyrsta þorpið sem ég kom til. Ég sá það á gullaldartímanum, í sínu flottasta skarti. Það var mjög gaman og ný reynsla fyrir kornungan strák því ég var í rauninni bara barn. Frá 1971 til 1979 var ég að þvælast þorp úr þorpi. Ég sá þorpin í blóma, fyrir tíma kvótans, sá frystihúsin og verbúðirnar sem voru bólgin af fólki. Þarna var blússandi uppgangur og gleði. Svo gerðist ég tónlistarmaður og frá 1980-1983 sá ég ekki merkjanlegar breytingar á þorpunum, nema að skyndilega voru vídeóleigur orðnar fleiri en ein í hverju einasta þorpi, á sumum stöðum voru þær sex til sjö.

Svo var kvótinn settur á. Mér er minnisstætt að einhvern tíma var ég á Súðavík og var að horfa út um stofuglugga og við mér blasti stór skuttogari í höfninni, uppljómaður. Þetta var flott mynd þar sem skipið vaggaði í bryggjukantinum í rökkurblámanum. Ég spurði hvort togarinn væri á veiðum. Nei, það er búið að selja kvótann, það er allt farið, var svarið. Þarna sá ég þessa hnignun þorpsins sem má rekja til kvótafrumvarpsins. Þarna skynjaði ég líka þá trú fólksins að samfélag væri betra og skemmtilegra því fleiri sem væru á sama blettinum. En um leið áttar fólk sig ekki á því að stundum er það aldrei meira einmana en í fjöldanum.“

Ofvirkni í heilabúinu

Þú virðist fá stöðugar hugmyndir, býrðu yfir mikilli hugarorku?

„Já, hausinn á mér er á stöðugum þeytingi. Þetta getur verið einhver fötlun af því að ég er skrifblindur. Þegar ég var barn gekk mér hræðilega í skóla en ég var samt orðin fluglæs um fimm ára aldur og var farinn að lesa fullorðinsbækur rúmlega sex ára. Bækurnar urðu akkeri mitt og björgunarbátur.

Kannski kemur sköpunin út af þessari fötlun, sennilega er einhvers konar ofvirkni í heilabúinu. Hugmyndirnar streyma til mín, ég hef meira verið að ýta þeim frá mér en laða þær til mín. En svo megum við ekki gleyma því að list gefur af sér list. Ég er kannski að lesa skemmtilega bók og fæ hugmynd. Eða ég heyri lag og hugsa: Já, þessi tónn! – og lag verður til í hausnum á mér. “

Hvað ertu að fást við núna?

„Ég er með mörg járn í eldinum. Ég er að skrifa eins konar sjálfsævisögu og er komin að unglingsárunum. Svo er ég að semja jólaplötu. Og að skrifa uppkast að sögu kvenna í veiði á Íslandi. Vitaskuld er ég svo alltaf að búa til tónlist. Ég held að með öllu þessu haldi ég fjaðurmagninu í fótunum.“

Bubbi við bæinn Meðalfell í Kjós en þar var verið …
Bubbi við bæinn Meðalfell í Kjós en þar var verið að grisja. Bubbi býr sjálfur við Meðalfellsvatn. mbl.is/Golli
Nýjasta plata Bubba heitir Þorpið.
Nýjasta plata Bubba heitir Þorpið.
Bubbi Morthens á tónleikum í Háskólabíói.
Bubbi Morthens á tónleikum í Háskólabíói. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert