Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Seðlabanka Íslands um að máli sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri höfðaði gegn bankanum vegna launamála verði vísað frá. Þetta þýðir að efnislegur dómur fellur í málinu.
Krafa Más snýst um efndir loforðs um 1.600 þúsund kr. mánaðarlaun sem hann taldi sig hafa samið um er hann tók við bankastjórastarfinu í júlí 2009.
Kjararáð hafði með úrskurði lækkað mánaðarlaun Más um 300 þúsund krónur, vegna laga um viðmið við laun forsætisráðherra.
Már taldi að kjararáði hafi brostið heimild að lögum til að skerða laun og starfskjör eftir skipun hans í embætti, enda verði lög nr. 87/2009 ekki túlkuð svo að þeim verði beitt með afturvirkum hætti.
Til að fá þessari ákvörðun breytt höfðaði Már mál gegn Seðlabankanum. Bankinn taldi að með vísan til lögskipaðs hlutverks bankaráðs geti bankaráð Seðlabankans ekki talist vera réttur fyrirsvarsaðili í málinu. Dómarinn hafnaði þessum rökum og verður því felldur efnislegur dómur í málinu.