Engu uppgjöri skilað um Þorláksbúð

Þorláksbúð hefur verið í byggingu í vetur og verður tilbúin …
Þorláksbúð hefur verið í byggingu í vetur og verður tilbúin í sumar ef áætlanir ganga eftir. mbl.si/Rax

Ríkisendurskoðun hefur farið ítrekað fram á að s.k. Þorláksbúðarfélag, sem Árni Johnsen alþingismaður er í forsvari fyrir, skili uppgjöri og yfirliti ársreikninga vegna 9,5 milljóna ríkisstyrks til framkvæmda í Skálholti. Miklar deilur standa um húsið sem félagið hefur reist og hefur Húsafriðunarnefnd í kjölfarið lagt til friðun Skálholts.

Framkvæmdirnar í Þorláksbúð hafa verið á fjárlögum frá árinu 2008 og nemur fjárveiting ríkisins til þess um 9,5 milljónum króna í heild. „Við höfum óskað eftir að fá yfirlit ársreikninga á grundvelli þeirra ríkisstyrkja sem fjárlaganefnd veitti til þessa verkefnis sem félagið sinnir þannig að við getum staðfest að peningarnir hafi farið í það sem þeir voru veittir til. En við höfum ekki fengið þá ennþá,“ segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi. 

Heildarkostnaður 38 milljónir

Þær kvaðir fylgja ríkisstyrkjum að í kjölfarið verði skilað reikningsyfirliti ásamt greinargerð um það hvernig styrkurinn var notaður, en það hefur Þorláksbúðarfélagið ekki gert þrátt fyrir bæði formlegar og óformlegar ítrekanir Ríkisendurskoðunar. Verkefnið hefur einnig verið styrkt af Kirkjuráði, en kostnaðaráætlun Þorláksbúðar hljóðar í heild upp á u.þ.b. 38 milljónir króna.

Árni Johnsen, formaður Þorláksbúðarfélagsins og framkvæmdastjóri, segir að Þorláksbúðarfélagið sjálft annist fyrst og fremst framkvæmdirnar en ekki fjármálahlið verkefnisins, það sé í höndum Skálholtsskóla og Skálholtsstaðar. „Það er skylda [Ríkisendurskoðunar} að fylgjast með framkvæmdum sem njóta styrks frá ríkinu. Það er bara eðlilegt og ég veit ekki betur en að verið sé að taka saman þau gögn,“ segir Árni.

27 spurningum ósvarað

Mikill styr hefur staðið um byggingu svo nefndrar Þorláksbúðar, á fornum rústum rétt við Skálholtskirkju. Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa framkvæmdina er Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur. Vilhjálmur hefur í tvígang sent Morgunblaðinu opið bréf til Þorláksbúðarfélagsins, í nóvember 2011 og aftur um síðustu helgi, með 27 spurningum um starfsemi og rekstur félagsins.

Meðal þess sem Vilhjálmur spyr um er hver sé prókúruhafi félagsins, hver beri fjárhagslega ábyrgð á framkvæmdinni í Skálholti, hve mikið fjármagn sé komið í verkið, hvaðan það komi og hverjar séu útistandandi skuldir vegna smíðinnar. Aðspurður segist Vilhjálmur hafa fengið mikil viðbrögð við spurningum sínum, en engin hinsvegar frá þeim sem spurningunum er beint að. „Ég hef ekkert við Vilhjálm Bjarnason að segja,“ segir Árni Johnsen, inntur eftir viðbrögðum við spurningum Vilhjálms.

Árni segir að Þorláksbúðarfélagið vinni samkvæmt lögum landsins og bygging hússins á rústum Þorláksbúðar sé á lokasprettinum. „Það á eftir að bæta torfi utan á húsið, snyrta það og lagfæra.“ Stefnt er að því að húsið verði tilbúið fyrir sumarið en Árni segir að það velti á peningum, full fjármögnun þess hefur ekki verið tryggð en að sögn Árna er ekki útlit fyrir annað en að kostnaðaráætlun haldi nokkurn veginn, um 38 milljónir króna.

Skálholt verði friðað

Húsafriðunarnefnd er meðal þeirra sem gagnrýnt hafa byggingu Þorláksbúðar. Reynt var að hindra framkvæmdina í vetur með því að leggja til skyndifriðun Skálholtsstaðar, en mennta- og menningarmálaráðherra hafnaði því, m.a. á þeim grundvelli að framkvæmdirnar væru ekki óafturkræfar. Húsafriðunarnefnd hefur nú sent ráðherra tillögu að friðun Skálholtsskóla, Skálholtskirkju og nánasta umhverfis, að undirskilinni hinni nýju yfirbyggingu Þorláksbúðar.

Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar, segir að tillagan feli ekki í sér kröfu um að Þorláksbúð verði rifin. Verði tillagan staðfest og staðurinn friðaður muni það hinsvegar  gefa til kynna ótvíræða afstöðu hlutaðeigandi til framkvæmdarinnar. „Þá allavega vita þessir aðilar um hug Húsafriðunarnefndar, og þá ráðherra, til þessarar yfirbyggingar,“ segir Nikulás. Í friðunartillögunar segir m.a. að hárfínt jafnvægi sé milli bygginga í Skálholti, sem myndi eitt fegursta manngerða umhverfi nútímabyggingarlistar á landinu. Þess vegna beri að fara mjög varlega í allar breytingar og íhuga gaumgæfilega hvaða áhrif þær hafa á grenndina.

Húsafriðunarnefnd er þeirrar skoðunar að Þorláksbúðarhúsið sé illa staðsett og fari ekki umhverfinu. „Við viljum ekki meina að þetta sé tilgátuhús, af því að þetta er stærri bygging og það hefur ekki farið fram rannsókn á því hvernig hús stóð á þessum stað. Að auki, þegar tilgátuhús eru reist, þá er það yfirleitt ekki byggt ofan á viðkomandi fornleifum heldur í einhverri fjarlægð, til að raska ekki rústunum,“ segir Nikulás og nefnir sem dæmi Auðunarstofu á Hólum og Eiríksstaði í Haukadal. Nikulás bendir á að þótt tillögu um skyndifriðun hafi verið hafnað segi það ekkert til um álit ráðuneytisins á almennri friðun Skálholts. 

Þorláksbúð verður formlega afhent Skálholtsstað og Skálholtskirkju til afnota þegar húsið er tilbúið og segir Árni Johnsen að staðarmenn séu mjög spenntir að fá það í notkun. 

Yfir hina gömlu tóftarveggi Þorláksbúðar hafa verið smíðaðir langbekkir.
Yfir hina gömlu tóftarveggi Þorláksbúðar hafa verið smíðaðir langbekkir. mbl.is/Rax
Svona er hugmyndin að Þorláksbúð líti út fullbúin.
Svona er hugmyndin að Þorláksbúð líti út fullbúin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka