Fram kom í máli Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, nú rétt fyrir klukkan eitt að hún hefði tekið þá ákvörðun að breyta dagskrá þingsins í dag þannig að umræðum um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarráði Íslands verði frestað og önnur mál á dagskránni verði tekin fyrir svo koma megi þeim til nefndar.
Fyrir utan breytingar á stjórnarráðinu er eitt annað stórt og umdeild mál á dagskránni í dag en það er áform um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Það mál verður ekki tekið fyrir áður en umræður um stjórnarráðsbreytingarnar halda áfram.
Þingflokkar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins lögðu það til í gær að með þessum hætti yrði staðið að málum til þess að hægt væri að taka mál fyrir sem minni eða enginn ágreiningur væri um og að stóru umdeildu málin stæðu ekki í veg fyrir því að þau mál yrðu rædd og þeim komið til nefndar.
Forystumenn stjórnarflokkanna tóku hins vegar fálega í þá tillögu og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn tillögu sína í morgun. Ásta Ragnheiður ákvað í kjölfarið að ganga að henni og lýstu Ragnheiður Elín Árnadóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður Framsóknarflokksins því yfir í kjölfarið að þingflokkar þeirra myndu leggja sitt að mörkum til þess að umrædd mál gætu farið til nefnda eftir helgi.