Frambjóðendur til vígslubiskupsembættisins að Hólum verða þrír en í dag var tekið á móti framboðstilkynningu séra Gunnlaugs Garðarssonar sóknarprests í Glerárprestakalli á Akureyri.
Fram kemur í tilkynningu frá Biskupsstofu að nú megi gera ráð fyrir að allur póstur stimplaður á lokadegi framboðsfrests, 30. apríl, hafi borist kjörstjórn og því muni frambjóðendum ekki fjölga frekar.
Frambjóðendurnir þrír eru:
Sr. Gunnlaugur Garðarsson, sóknarprestur í Glerárprestakalli á Akureyri.
Sr. Kristján Björnsson sóknarprestur í Vestmannaeyjaprestakalli.
Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal.
Gert er ráð fyrir að kjörgögn verði send út um miðjan maí. Frá útsendingardegi skal kosningu og talningu atkvæða lokið innan tveggja vikna.
Ráðgert er að nýr vígslubiskup verði vígður á Hólahátíð í ágúst og að hann taki við embætti
1. september.