Líst ágætlega á 40 ára leiguna

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra.
Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

„Ég var að kynna, sem iðnaðarráðherra, niðurstöðu nefndar sem að metur hvort að viðskiptahugmyndin fellur undir ívilnunarlögin,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, iðnaðarráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Með ummælum sínum vísar hún til skilyrða 5. gr. laga nr. 99/2010 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

Að sögn Oddnýjar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að sú hugmynd að sveitarfélög á Norður- og Austurlandi kaupi jörðina Grímsstaði á fjöllum og leigi hana til félags í eigu Huang Nubo til 40 ára uppfylli ofangreind skilyrði. Aðspurð hvort hún muni styðja við þessa leið ef sveitarfélögin gera slíkan samning við Huang sagði Oddný: „Mér líst ágætlega á það að jörðin á Grímsstöðum á fjöllum verði í opinberri eigu, þ.e. í eigu sveitarfélaganna en síðan leigi þau jörðina áfram. Mér líst ekkert illa á það.“

Spurð hvort þetta merki að stutt sé í að málið leysist sagði Oddný: „Tökum nú eitt skref í einu. Hér var verið að kynna niðurstöðu nefndarinnar, hún segir að verkefnið falli undir lögin um ívilnanir og lengra erum við ekki komin.“ Oddný sagði einnig aðra ráðherra í ríkisstjórninni hafa tekið ágætlega í niðurstöður nefndarinnar á ríkisstjórnarfundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka