Bjórinn Bríó sigraði um helgina í flokki þýskra pilsnera á World Beer Cup 2012, stærstu bjórkeppni heims. Bríó varð hlutskarpastur í keppni 74 bjóra í sínum flokki, en hann er framleiddur af Borg brugghúsi, sem er í eigu Ölgerðarinnar.
Á vefsvæði Ölgerðarinnar segir að fimm íslenskir bjórar hafi verið skráðir til þátttöku í keppninni en Bríó hafi verið sá eini sem vann til verðlauna. Þá segir einnig á vefsvæðinu, að bjórinn sé bruggaður sérstaklega fyrir Ölstofu Kormáks og Skjaldar. Bragð hans og séreinkenni voru þróuð í samvinnu við eigendur Ölstofunnar.
Bríó er pilsner-bjór en sú bjórtegund kom fyrst fram á miðri 19. öld. Notað er þýskt humlayrki, Mittelfruh frá Hallertau í Bavaríu, í bjórinn. Auk humla er notað ljóst pilsen-malt frá Svíþjóð, vatn úr Gvendarbrunnum og undirgerjandi ger.