„Þetta er sígilt vandamál þegar líður á sumarið og aspirnar rjúka upp og breiða úr sér og valda skemmdum neðanjarðar og ofan. Við fáum endalaust klögumál vegna aspa þar sem þær eru á stöðum þar sem þær eiga ekki við og valda usla og vandræðum,“ segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, um deilur um trjágróður sem rata á borð félagsins.
Hann segir að eitt mál sem því hafi borist snúist um 57 aspir í litlum húsagarði.
Sigurður segir að víða erlendis séu aspir bannaðar í þéttbýli og húsagörðum og engum detti þar í hug að nota þær sem limgerði eins og á Íslandi.
„Þær eru ofsalega flottar, duglegar og fljótvaxnar þar sem þær eiga við en þetta er svona eins og að reyna að troða górilluapa inn í hamstursbúr og reyna að hemja hann þar,“ segir Sigurður.
Aspir þurfi mikið pláss upp í loft og til hliðar en það sé þó rótarkerfið sem sé fyrirferðarmest. Ræturnar valdi oft skemmdum á lögnum og bori sig inn í grunn húsa. Segir Sigurður að alltaf séu um þrjú til fjögur mál sem tengjast öspum á dagskrá hjá félaginu á mismunandi stigum á hverjum tíma.
Þá sé þekkt að aspirnar valdi truflunum á sjónvarpssendingum um örbylgju þegar snjór setjist á þær á veturna og þegar þær eru í fullum skrúða á sumrin.
Nágrannadeilur um trjágróður geta orðið mjög harðar og segir Sigurður jafnvel dæmi um að áratugalöng vinátta nágranna fari í súginn vegna slíkra deilna. Það séu alltaf nokkur mál sem tengjast trjágróðri sem fari fyrir dómstóla á hverju ári. Ekki sé langt síðan dómur gekk í héraðsdómi þar sem húseiganda var gert að fella tré sem byrgði fyrir birtu og útsýni nágranna. Þá var annar dæmdur til að fjarlægja sextán aspir sem skemmdu lagnir neðanjarðar.
Menn hafa einnig verið dæmdir í sektir fyrir að taka málin í eigin hendur og fella tré í leyfisleysi.
„Sem betur fer leysast málin yfirleitt í friði, annaðhvort með því að annar aðilinn flytur eða aspirnar fara,“ segir Sigurður.