Elfa Dögg Þórðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Árborg, styður ekki tillögu flokksins í fræðslunefnd sveitarfélagsins um að Árborg segi sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands. Hún segist sett í erfiða stöðu.
Á fréttavefnum DFS, fréttablaði Suðurlands, kemur fram að Elfa Dögg sem einnig er formaður stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sé á móti því að Árborg segi sig úr Skólaskrifstofunni.
„Það má ekki gleyma því að hér ræðir um börn sem oft og tíðum eiga í vanda og mega sín lítils og það er skylda Árborgar sem stærsta sveitarfélagsins að standa með nágrönnum okkar sem vel á minnst hafa stutt okkur í gegnum árin með því að sækja hingað þjónustu og verslun og halda þar með uppi atvinnustarfsemi hér að hluta,“ segir Elfa í samtali við DFS.