Húseiganda í Austurbæ Reykjavíkur brá heldur betur í brún þegar hann kom til síns heima eftir vinnu í dag. Í bakgarði hússins voru fjórir verkamenn að grafa sundur garðinn og rífa upp túnþökur. Úr krafsinu kom að verið var að leggja ljósleiðara sem aldrei var beðið um.
Húseigandinn, Hafdís, segir í samtali við mbl.is að þegar hún kom úr vinnunni hafi hún heyrt skarkala í garðinum. Hún hafi því athugað hvað var á seyði og séð garðinn í bágbornu ástandi. „Ég var náttúrlega alveg brjáluð, hellti mér yfir mennina og sagði þeim að snáfa úr garðinum. Þeir bentu á verkstjóra sem greindi mér frá því að verið væri að leggja ljósleiðara Gagnaveitunnar.“
Hafdís segir að sá grunur hafi strax læðst að henni en skilti þess efnis hafi verið uppi í hverfinu. Hins vegar hafi ekki verið haft samráð við hana áður en farið var inn í garðinn. „Ég fékk póst um það fyrir nokkrum mánuðum að til stæði að leggja ljósleiðara í hverfið. Þá hringdi ég í Gagnaveituna og fékk þær upplýsingar að bréf sem þessi væru oft send ári áður en til framkvæmda kæmi. Líklega væri verið að teikna þetta upp og samband yrði haft við mig þegar til þess kæmi að leggja leiðarann.“
Þar sem verkamennirnir í garðinum töluðu ekki íslensku og gátu ekki með góðu móti skýrt út fyrir Hafdísi hvað væri á seyði hringdi hún eftir aðstoð lögreglunnar. Skömmu eftir það kom verkstjóri mannanna og tjáði henni hvers kyns var og skýrði svo frá að um misskilning hlyti að vera ræða. Eftir það biðu þau eftir lögreglunni. „Lögreglan kom og ég sagðist ætla leggja fram kæru. Mér finnst það vera kærumál þegar búið er að grafa upp garðinn minn án þess að tala við mig, eina skráða eigandann. Lögreglumaðurinn var þessu nú ekki sammála og sagði að mennirnir hefðu komið inn í garðinn í góðri trú. Ég sagðist ekki ætla beina kærunni að þeim heldur Gagnaveitunni sem hefði ekki rætt við mig.“
Hafdís segir að lögreglumaðurinn hafi tjáð henni að slík kæra færi aldrei í gegn. Hún yrði að höfða einkamál á hendur Gagnaveitunni. Hún hyggst þó ekki láta verða af því að fara þá leið.
Síðar kom á vettvang eftirlitsmaður frá Gagnaveitunni, bar undir Hafdísi plagg og sagði henni að skrifa undir ef hún vildi ekki fá ljósleiðara. Hún sagðist ekki ætla skrifa undir neitt án þess að lesa það. „Á plagginu kemur fram að ekki hafi náðst í mig. Það kemur hins vegar ekki fram hversu oft var reynt að ná af mér tali. Mjög auðvelt hefði til dæmis verið að henda miða inn um lúguna hjá mér með símanúmeri til að hringja í. Ég er einnig í símaskránni þannig að hægt hefði verið að hringja í mig. En ekkert af þessu var gert.“
Hafdís segir afar ósátt við vinnubrögð Gagnaveitunnar. Hún hafi ræktað upp garðinn í tæp tuttugu ár og því hafi þetta verið afar stuðandi upplifun. Hún segist jafnframt vita til þess að fleiri hafi lent í því sama, meðal annars hafi verið farið inn í garð móðursystur hennar til að leggja ljósleiðara án þess að spyrja um leyfi.