Stapi fær ekki 5,2 milljarða króna

Hæstiréttur
Hæstiréttur mbl.is / Hjörtur

Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknaði ALMC, sem hét áður Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki, af kröfum Stapa lífeyrissjóðs um greiðslu tæpra 5,2 milljarða króna. Um er að ræða kröfur,  sem var lýst of seint í bú bankans vegna mistaka lögmannsstofu.

Lífeyrissjóðurinn taldi, að krafan ætti að halda gildi sínu og fá sömu meðferð og aðrar kröfur, þar sem Straumur-Burðarás (nú ALMC hf.) hefði náð nauðasamningum við kröfuhafa  sína, en ekki farið í gjaldþrot.

Undir þetta tók héraðsdómur. Í niðurstöðu dómsins segir, að nauðasamningur, sem gerður er eftir að félag hefur verið tekið til gjaldþrota­skipta, leiði til þess að fjárhæð krafna og skilmálar breytast eftir því sem samningurinn mæli fyrir um.  Gjaldþrotaskiptunum sé hætt og stjórn félagsins taki aftur við forræði á hagsmunum þess og skuldbindingum. 

Kröfuhafi, sem komst ekki að við skiptin vegna þess að hann lýsti ekki kröfu sinni, geti krafist greiðslu kröfu sinnar, en verði að sæta lækkun hennar í samræmi við skilmála nauðasamningsins. 

Segir dómurinn, að af þessu leiði, að kröfur sem komust ekki að við skiptin, hafi ef svo má segja vaknað til lífs á ný þar sem skuldari þeirra sé ekki lagður niður.  Engin heimild sé í lögum til þess að telja kröfur falla alveg niður þó þeim hafi ekki verið lýst við gjaldþrotaskipti eða slitameðferð.

Brottfall kröfu algert og endanlegt

Hæstiréttur segir hins vegar, að vanlýsing kröfu við innköllun sé eitt þeirra atvika sem bundið geti enda á tilvist kröfuréttinda. „Brottfall kröfu vegna vanlýsingar er algert og endanlegt, nema lög mæli á annan veg. Innköllun kröfu með þeim réttaráhrifum að vanlýsing leiði til brottfalls hennar verður að eiga stoð í lögum.“

Þá segir að upplýst sé að skilyrðum 1. töluliðar 118. gr. um að afla samþykkis nægilega margra lánardrottna til þess að krafa stefnda mætti komast að varð ekki fullnægt og stofnaðist hún því ekki að nýju af þeim ástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert