Bæjarstjórinn í Garði rekinn

Gerðaskóli í Garði - mynd úr safni
Gerðaskóli í Garði - mynd úr safni mbl.is/Rax

Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garði var rekinn frá störfum á aukabæjarstjórnarfundi nú í kvöld. Að sögn Ásmundar snýst uppsögnin og þær breytingar sem urðu á meirihlutanum í bæjarstjórn um helgina um málefni skólans. Hann frétti fyrst af uppsögninni á vefmiðlum í dag. Ekkert samband var haft við hann af núverandi meirihluta.

Kostar sveitarfélagið 50 milljónir króna

Að sögn Ásmundar mun uppsögnin kosta sveitarfélagið um 50 milljónir króna þar sem hann verður á launum í 32 mánuði. Hann er mjög ósáttur við uppsögnina, sérstaklega hvernig staðið var að henni.

Það hefur engin haldbær skýring verið gefin á uppsögninni segir Ásmundur. Hann segir að Kolfinna S. Magnúsdóttir, sem sleit meirihlutasamstarfi D-listans og gekk til liðs við N-listann um síðustu helgi, segi að ágreiningur sé um málefni skólans. „Ég kannast ekki við þennan ágreining um skólann og hann hefur ekki komið fram á fundum í skólanefndinni,“ segir Ásmundur.

Skýrsluhöfundar leggja til að ráðið verði nýtt stjórnendateymi við skólann

Í skýrslu sem mennta- og menningarmálaráðuneytið lét vinna um Gerðaskóla kemur fram að helstu veikleikar skólans eru að ekki hefur verið unnið nægilega markvisst út frá stefnu og skólanámskrá, útkoma skólans á samræmdum prófum og PISA, sérstaklega í lestri og miklar pólitískar deilur um skólastarfið.

Helstu aðgerðir til úrbóta, að mati skýrsluhöfunda, eru að ráðið verði nýtt stjórnendateymi að skólanum, sem ekki tengist pólitískum fylkingum innan sveitarfélagins, svo auka megi árangur skólans og ánægju starfsmanna og styðja þarf vel við bakið á nýjum stjórnendum.

Þurftum enga skýrslu til að segja okkur hvað var að

„Málið er það að við vorum að lofa því að taka á erfiðasta vandanum í Garðinum sem enginn hefur tekið á í fimmtán eða tuttugu ár. Það þurfti enga skýrslu til að segja fólki hvað var að í Garðinum,“ segir Ásmundur og vísar þar til innra starfs skólans. Hann bætir við að þegar kom að því að fara eftir skýrslunni sem unnin var og gera upp þau þungu mál sem í henni komu fram.

„Meðal annars að segja upp öllum stjórnendum í skólanum og skipta út stjórnarliðinu þá gat fólk ekki staðið í báða fætur. Bæjarstjórinn var með þetta leiðindamál og hann galt fyrir það með starfinu. Það er bara punkturinn í málinu. Fólk gafst upp,“ segir Ásmundur.

Hann óttast að nú verði ekki unnið eftir þeim athugasemdum sem fram komu í skýrslunni. Fólkið sem tekur yfir eru kennarar eða makar kennara segir Ásmundur í samtali við mbl.is og bætir við að nú sé bæjarlífinu í Garði stjórnað úr skólanum.

Segir framtíð skólans skipta meiru en starf bæjarstjóra

Að sögn Ásmundar rak forseti bæjarstjórnar, Jónína Hólm, áheyrendur á bæjarstjórnarfundinum í kvöld úr salnum þegar rætt var um skýrslu skólans en mikill hiti er í íbúum sveitarfélagsins, segir Ásmundur.

„Ef það hefði verið einhver dugur í þessu fólki sem nú er í meirihluta bæjarstjórnar hefði það átt að koma til mín og ræða um hvort hægt væri að semja um starfslok,“ segir Ásmundur og bætir við að ef hann hefði fengið loforð fyrir því að áfram yrði unnið að málum skólans eins og átti að gera þá hefði verið vel hægt að semja við hann um starfslok. Það hefði þýtt mun minni kostnað fyrir sveitarfélagið heldur en þær fimmtíu milljónir sem nú þurfi að greiða honum. „Framtíð skólans skiptir miklu meira máli heldur en mitt starf. Bæjarstjórar koma og fara,“ segir Ásmundur.

Mikil óvissa og óánægja

Stuttu fyrir heimsókn þeirra sem unnu úttektina í skólann var skólastjóra Gerðaskóla sagt upp störfum. Núverandi skólastjóri tók við stjórn skólans í janúar 2012 og er ráðinn til loka núverandi skólaárs.

„Mikil óvissa ríkti innan skólans og óánægja með hvernig staðið var að starfslokum fyrrverandi skólastjóra og litar það eflaust nokkuð niðurstöður úttektarinnar.

Í stjórnun skólans undanfarin ár hefur að mörgu leyti verið unnið gott faglegt starf en eftirfylgni stjórnenda ekki verið nægileg né stjórnendateymið unnið saman sem heild.

Núverandi skólastjóra hefur ekki tekist að ná góðri samvinnu við starfsmenn sem að mörgu leyti hafa verið í vörn gagnvart honum. Skólaráð hefur starfað síðan 2009. Stjórnskipulag skólans virðist ekki henta honum vel og starfslýsingar stjórnenda eru ekki nógu skýrar.

Mikil tortryggni virðist ríkja milli hluta starfsmanna skólans og meirihlutans í bæjarstjórn og skólanefnd. Eftirlit Garðs með skólastarfi í gegnum skólanefnd hefur orðið mjög erfitt vegna mikils pólitísks ágreinings í nefndinni,“ segir meðal annars í skýrslunni. 

Ásmundur Friðriksson
Ásmundur Friðriksson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert