Er að semja við Hreyfinguna

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í morgun að ríkisstjórnin ætti í samningaviðræðum við Hreyfinguna um ýmis mál. Hún sagðist vonast eftir að þessar viðræður gætu greitt fyrir þingstörfum.

Birgir Ármannsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, spurði forsætisráðherra út í viðræður við Hreyfinguna.

Jóhanna sagðist hafa tekið eftir því að þingmenn Hreyfingarinnar tækju ábyrgt á málum. Þeir skoðuðu hvert mál efnislega og hvernig það gæti nýst þjóðinni. Hreyfingin ætti samhljóm með ríkisstjórninni í stjórnarráðsmálinu, stjórnarskrármálinu og að hluta til um framvarp um stjórn fiskveiða. Önnur mál væru snúnari eins og kröfur Hreyfingarinnar um almenna skuldaniðurfærslu. Jóhanna sagði að það væri verið að fara yfir tillögur Hreyfingarinnar í þeim efnum og reikna út áhrif þeirra.

Jóhanna sagðist hafa átt 2-3 fundi með Hreyfingunni. Birgir spurði um efnislega niðurstöðu þessara viðræðna, en Jóhanna sagðist ekki geta „í miðjum samningaviðræðum“ gefið upplýsingar efni viðræðnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert