Helgi Haraldsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Árborg, segir ljóst eftir nýjustu sviptingar í bæjarstjórnarmálum í Árborg að oddviti sjálfstæðismanna, Eyþór Arnalds, nýtur ekki trausts flokksráðs eigin flokks. Helgi segist ekki hafa mikla trú á því að meirihlutinn eigi eftir að halda í Árborg næstu tvö árin.
Í gærkvöldi var gengið frá samkomulagi milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um að mynda nýjan meirihluta í Árborg en undanfarið hefur samstarfið innan Sjálfstæðisflokksins, sem er með fimm menn af níu í bæjarstjórninni, gengið brösuglega, að sögn Helga.
Í dag var hins vegar ákveðið á fundi sjálfstæðismanna að meirihlutinn verði óbreyttur í sveitarfélaginu og Elfa Dögg Þórðardóttir, sem skipaði annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, starfi áfram með meirihlutanum.
Helgi segir að ákveðið hafi verið á fundinum í gærkvöldi að breikka meirihlutann í bæjarstjórn svo hann yrði starfhæfur. Sjálfstæðismenn fengu fimm menn kjörna í bæjarstjórn Árborgar í síðustu kosningum og hreinan meirihluta. Samfylkingin er með tvo menn, framsóknarmenn einn og VG einn.
Óstarfhæfur meirihluti í einhverja mánuði
„Ástæðan fyrir þessu öllu er sú að meirihluti sjálfstæðismanna hefur ekki verið starfhæfur undanfarna mánuði,“ segir Helgi en Elfa Dögg hafði fyrir ári samband við bæjarfulltrúa sem eru í minnihluta í Árborg um að mynda nýjan meirihluta.
„Það fór nú ekki eins langt og núna og svo þrætti hún fyrir það í fjölmiðlum að hafa hitt okkur. Síðan höfum við orðið vör við það undanfarið að þau eru ekki samstiga og síðustu daga keyrði um þverbak,“ segir Helgi.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi hafi Elfa Dögg sagt að ekki ríkti traust milli hennar og annarra í meirihlutanum og talað meðal annars um hnífstungu í bakið. Helgi segir að Elfa Dögg hafi í kjölfarið haft samband við minnihlutann og átt fund með fulltrúum minnihlutans í fyrrakvöld um myndun nýs meirihluta þar sem hún geti ekki unnið með núverandi meirihluta.
Að sögn Helga vildu menn stíga varlega til jarðar vegna reynslunnar fyrir ári og tjáðu henni að það yrði að liggja ljóst fyrir hvort hún væri hætt í Sjálfstæðisflokknum og ætlaði að starfa sem óháður bæjarfulltrúi.
Eyþór leitaði til Helga um samstarf
„Í millitíðinni hefur oddviti sjálfstæðismanna samband við mig og falast eftir því hvort það sé möguleiki á því að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn að ganga í meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokknum því þeirra meirihluti sé mjög ótryggur og þau gangi ekki í takt. Ekki sé traust milli manna.
Í framhaldi af því þá kalla ég saman mitt bakland og minn hóp í gærkvöldi þar sem þessir möguleikar eru ræddir. Að ganga inn í nýjan meirihluta með minnihlutanum og Elfu eða ganga inn í meirihlutann með sjálfstæðismönnum. Í framhaldi af því fer ég á fund með oddvita sjálfstæðismanna og segi að við höfum ákveðið að hitta hann og ræða þessi mál,“ segir Helgi.
Helgi segir að ekkert hafi komið upp á sem menn greini á um og í framhaldinu kallaði Eyþór á aðra bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins en Elfu á sinn fund. Á sama tíma hafi Helgi fundað með framsóknarmönnum og í kjölfarið rituðu oddvitar flokkana, það er Eyþór og Helgi undir samkomulag um að fara í viðræður um myndun nýs meirihluta.
Klukkan 11 í morgun var haldinn fundur í flokksráði Sjálfstæðisflokksins á Selfossi ásamt Elfu þar sem til stóð að fá nýtt meirihlutasamstarf samþykkt. Að sögn Helga fullyrti Eyþór fyrir þennan fund að hann væri í viðræðum við Framsókn með fullt umboð frá fulltrúaráðinu.
Að sögn Helga hringdi Eyþór síðan í hann eftir fundinn, sem stóð í fjóra klukkutíma, og sagði Helga að þetta hefði ekki verið samþykkt á fundinum. „Fréttin í því er í mínum huga sú að oddviti sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu Árborg nýtur ekki trausts og stuðnings fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Árborg,“ segir Helgi og bætir við að það sé ekki víst að menn séu reiðubúnir í samstarf verði eftir því leitað síðar á kjörtímabilinu.