Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg, segir ekki rétt að hann njóti ekki trausts flokksráðs flokksins í Árborg og enginn fundur hafi verið haldinn í flokksráðinu í dag, heldur hafi bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fundað með sínu baklandi í dag.
Helgi Haraldsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Árborg, sagði í samtali við mbl.is í dag að það væri ljóst eftir nýjustu sviptingar í bæjarstjórnarmálum í Árborg að oddviti sjálfstæðismanna, Eyþór Arnalds, nýtur ekki trausts flokksráðs eigin flokks.
Eyþór segist hins vegar skilja vel að Helgi sé sár yfir því að ekki varð af samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í bæjarstjórn og hann virði það við Helga.
Að sögn Eyþórs var á fundinum í dag farið yfir þá kosti sem voru í stöðunni og hvort breikka ætti meirihlutann í bæjarstjórninni. Eyþór segir að hann hafi leitað til framsóknarmanna í gær um möguleika á að þeir myndu taka þátt í meirihlutasamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum enda sé fátt sem skilji á milli flokkanna í áherslum bæjarstjórnarinnar. Þeir hafi síðan undirritað samkomulag í gærkvöldi um að ræða ekki við aðra flokka um myndun nýs meirihluta.
Eyþór segir að það hafi verið niðurstaða fundarins í dag að ekki væri þörf á að þiggja þetta góða boð Helga um samstarf í bæjarstjórninni en það hafi verið skoðað af einlægni.
Hann segir fráleitt að segja meirihlutann óstarfhæfan og það sjáist best á fundargerðum bæjarstjórnar Árborgar, svo sem síðasta bæjarstjórnarfundar þar sem öll mál voru afgreidd án vandkvæða.