Vinsælasti veitingastaður landsins er í Ikea

Íslenskur veitingastaður selur tæplega 440.000 heitar máltíðir á ári, 140.000 rjómaísa, 230.000 drykki, um 100.000 kökur og aðra eftirrétti og 150.000 pylsur. Veitingastaðurinn er staðsettur í Garðabæ, nánar tiltekið í húsgagnaversluninni Ikea.

Þar eru matreidd um tvö tonn af kartöflum í viku hverri og sjö tonn af ýmiskonar kjötvöru. Meirihluti matvælanna er íslensk framleiðsla og langvinsælasti rétturinn á matseðli Ikea er sænskar kjötbollur.

Hver Íslendingur kemur að meðaltali 7-8 sinnum í verslunina á ári hverju.

Spurður að því hvers vegna verið sé að reka veitingastað í húsgagnaverslun svarar Arnar Stefánsson, veitingastjóri Ikea, að fyrst og fremst sé um að ræða þjónustu við viðskiptavini. „Aðalmarkmiðið hjá okkur er að selja góðan mat með lítilli álagningu. Annars hafa rannsóknir sýnt að margir taka ákvarðanir um húsgagnakaup á veitingastaðnum hjá okkur.“

Hann segir að langflestir komi á veitingastaðinn í Ikea á sprengidag. „Þá komu á milli 3.000 og 4.000 og gæddu sér á saltkjöti og baunum sem var selt á túkall. Þá eru allir yfirmenn hússins hér. Framkvæmdastjórinn stendur við að ausa súpu, starfsmannasviðið og fjármálasviðið í uppvaskinu og allir sem vettlingi geta valdið koma að hjálpa.“

Arnar segir að nokkur breyting hafi orðið á starfsemi veitingastaðarins eftir kreppu. „Við urðum vör við mikla aukningu hvað varðar foreldra með börn, enda borða börn yngri en 12 ára frítt. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka