„Ég játa, eins og stendur þarna“

Hlífar Vatnar Stefánsson leiddur inn í réttarsalinn
Hlífar Vatnar Stefánsson leiddur inn í réttarsalinn mbl.is/Árni Sæberg

Hlífar Vatnar Stefánsson játaði við þingfestingu í dag að hafa orðið Þóru Eyjalín Gísladóttur að bana í febrúar sl. „Ég játa, eins og stendur þarna,“ sagði Hlífar. Hann mótmælti bótakröfum í málinu með eftirfarandi orðum: „Þetta er ógeðslega ómerkilegt.“

Áður hafði dómari úrskurðað að þinghaldið skuli vera opið, en eins og mbl.is greindi frá krafðist réttargæslumaður þess að þinghaldið yrði lokað. Eftir að niðurstaðan var kunngerð tókust málsaðilar og dómari á um hvort úrskurðurinn sé kæranlegur. Eftir nokkrar umræður var komist að þeirri niðurstöðu að svo væri. Ákvað réttargæslumaður því að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar, sem mun kveða endanlega upp um hvort þinghald í málinu verði lokað.

Í málinu er Hlífar Vatnar Stefánsson, sem fæddur er árið 1989, ákærður fyrir manndráp með því að hafa á tímabilinu frá síðdegi fimmtudaginn 2. febrúar til hádegis föstudaginn 3. febrúar sl. veist að Þóru Eyjalín Gísladóttur í svefnherbergi á heimili sínu í Hafnarfirði, með hnífi og stungið hana ítrekað í andlit og líkama. Þá skar hann hana á háls, allt með þeim afleiðinginum að hún hlaut bana af.

Ákæruvaldið krefst þess að hann verði dæmdur til refsingar en til vara gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun

Metinn sakhæfur

Þegar hefur farið fram sakhæfismat á Hlífari og reyndist hann sakhæfur. Hann er sem stendur vistaður á Litla-Hrauni, og var gæsluvarðhald framlengt á ellefta tímanum um fjórar vikur.

Verjandi Hlífars hyggst ekki leggja fram greinargerð í málinu og verður því lítil frestun á málinu. Var ákveðið að aðalmeðferð fari fram 22. júní nk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert