Réttargæslumaður fjölskyldu konu sem myrt var í heimahúsi í Hafnarfirði í febrúar sl. fór fram á það við þingfestingu máls á hendur manni ákærðum fyrir morðið að þinghald í málinu verði lokað. Úrskurður verður kveðinn upp fyrir hádegið.
Krafan er sett fram til að hlífa fjölskyldu hinnar látnu, þar á meðal 19 ára syni hennar. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari í málinu, mótmælti kröfunni og benti á að meginreglan í réttarfari væri að þinghöld séu opin.
Í málinu er Hlífar Vatnar Stefánsson, sem fæddur er árið 1989, ákærður fyrir manndráp með því að hafa á tímabilinu frá síðdegi fimmtudaginn 2. febrúar til hádegis föstudaginn 3. febrúar sl. veist að Þóru Eyjalín Gísladóttur í svefnherbergi á heimili sínu í Hafnarfirði, með hnífi og stungið hana ítrekað í andlit og líkama. Þá skar hann hana á háls, allt með þeim afleiðinginum að hún hlaut bana af.
Ákæruvaldið krefst þess að hann verði dæmdur til refsingar en til vara gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.
Þá er gerð krafa um 4 milljónir króna í bætur fyrir son látnu sem fæddur er árið 1993, en einnig gerir faðir Þóru kröfu um 2 milljónir króna í bætur og 1,5 milljón króna í útfararkostnað. Að endingu gerir móðir látnu kröfu um 2 milljónir króna í bætur.
Í máli réttargæslumanns kom fram að öll atvik og aðstæður í málinu væru með þeim hætti að rétt sé að líta svo á að undantekning laganna eigi við. „Þarna er um að ræða hrottafengið morð og upplýsingar um viðkvæm atriði sem óhjákvæmilega verður fjallað um, og verður aðstandendum þungbært að hlusta á í gegnum fjölmiðla,“ sagði réttargæslumaðurinn.
Þá tók hann fram að fram að þessu hafi umfjöllun fjölmiðla reynt mjög á fjölskylduna, enda komið fram upplýsingar sem henni var ekki verið kunnugt um. Fjölskyldan hafi ekki fengið að sjá dóttur sína eftir morðið og þau viti lítið um ástandið og aðkomuna á vettvangi.
Vísað var til þess að fallist var á lokað þinghald í svonefndu Heiðmerkurmáli en í því var ungur maður dæmdur fyrir að myrða unnustu sína á hrottafenginn hátt.
Helgi Magnús mótmælti kröfunni og sagði óvanalegt að loka þinghöldum í málum sem þessum. Hann sjái ekki rökin fyrir lokun, þó að hann skilji sjónarmið aðstandenda. Þá hafi ákæran þegar verið afhend fjölmiðlum.
Hann vildi undirstrika að meginreglan sé sú að þinghöld séu opin „og eins blóðugt og málið er og óhugnanlegt þá er þetta eins og mörg önnur mál. Því eru engin rök til að hlífa sakborningi við að það sé opið þinghald.“
Dómari málsins tók málið til úrskurðar og er hans að vænta fyrir hádegið.