Erlendur ferðamaður lenti utan vegar á bifreið sinni við Saurbæ í Dölum um hádegisbilið í dag og þóttu meiðsli hans það alvarleg að beðið var um aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar sem sótti manninn og flutti hann suður á Landspítalann.
Talið er að maðurinn hafi misst stjórn á bifreiðinni í lausamöl með þeim afleiðingum að hún valt. Vart varð við slysið á bæ í nágrenninu og var lögreglu í kjölfarið gert viðvart.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Borgarnesi varð maðurinn fyrir höfuðmeiðslum og bakmeiðslum en ekki liggur þó endanlega fyrir hversu alvarlega slasaður hann er.