Óreglumaðurinn sem játaði morð

Hlífar Vatnar Stefánsson leiddur inn í réttarsalinn
Hlífar Vatnar Stefánsson leiddur inn í réttarsalinn mbl.is/Árni Sæberg

Ungi maðurinn sem játaði fyrir Héraðsdómi Reykjaness í morgun á sig morð hefur áður komist í kast við lögin, og raunar verið dæmdur fyrir fjölmörg brot, oftast nytjastuld og þjófnaði, en einnig fíkniefnabrot.

Hlífar Vatnar Stefánsson er fæddur í janúar 1989 og er því 23 ára. Samkvæmt sakarvottorði hans, sem lagt var fram í málinu í morgun, var hann í október 2007 dæmdur til að greiða sekt fyrir akstur undir áhrifum vímuefna.

Ljóst er því að Hlífar hefur um árabil glímt við vímuefnavanda en hann var í mjög annarlegu ástandi þegar hann kom á lögreglustöðina í Hafnarfirði að morgni 6. febrúar sl. og greindi frá því hvað gerst hafði á heimili sínu.

Lögregla greindi frá því samdægurs að framburður Hlífars hafi verið um margt óljós, en augljós ástæða hafi verið til að halda að heimili hans.

Skelfileg sjón blasti við lögreglumönnum

Þegar á heimili Hlífars að Skúlaskeiði í Hafnarfirði kom blasti við lögreglumönnum skelfileg sjón. Þar var látin Þóra Eyjalín Gísladóttir, fædd í október 1976. Hlífar og Þóra höfðu verið í sambandi og trúlofuð um tíma. Lík Þóru var illa leikið en í ákæru má lesa mjög stytta atvikalýsingu.

Þar segir að Hlífar hafi veist að Þóru í svefnherbergi hússins „með hníf og stungið hana ítrekað í andlit og líkama, en ein stungan gekk inn í vinstra lunga hennar, og skorið hana á háls, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut bana af.“

Hlífar var þegar úrskurðaður í gæsluvarðhald og gert að sæta geðrannsókn. Við þingfestinguna í morgun var upplýst um að í mati geðlækna komi fram að Hlífar sé sakhæfur.

Fordæmi fyrir lokuðu þinghaldi

Þrjár bótakröfur liggja frammi í málinu og hafnaði Hlífar þeim öllum í morgun. Ein þeirra er sett fram í nafni nítján ára sonar Þóru, fæddur 1993, en hinar tvær frá foreldrum hennar. Þær eru samtals upp á 9,5 milljón króna.

Réttargæslumaður fjölskyldunnar fór fram á að þinghald í málinu verði lokað. Þar er um að ræða undantekningu frá meginreglunni en undanfarin misseri hefur verið fallist á þessa kröfu, t.d. í máli gegn Þorvarði Davíð Ólafssyni sem var dæmdur fyrir að ráðast hrottalega á föður sinn.

Einnig var þinghald lokað í svonefndu Heiðmerkurmáli, en í því var 25 ára gömlum manni gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun en hann banaði unnustu sinni og barnsmóður. Í það skiptið fór ríkissaksóknari fram á að þinghald yrði lokað. Mat hann aðstæður með þeim hætti að eðlilegt væri að hlífa ungu barni hinnar látnu og vandamönnum hennar.

Í málinu sem þingfest var í morgun mótmælti vararíkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarsson, hins vegar kröfu réttargæslumannsins. Sagðist hann skilja sjónarmið aðstandenda en ekki rökin fyrir lokun þinghaldsins.

Dómari málsins hafnaði kröfu réttargæslumannsins sem kærði úrskurðinn til Hæstaréttar.

Réðst á mann í Gistiskýlinu

Ef vikið er aftur að sakarferli Hlífars Vatnars má sjá að ekki er langt síðan hann var dæmdur fyrir líkamsárás. Snemma í janúar síðastliðnum var hann dæmdur í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir árás 9. ágúst 2010. Þá réðst Hlífar að manni í Gistiskýlinu við Þingholtsstræti og sló hann hnefahöggi í andlitið. Um var að ræða hegningarauka við fyrri brot.

Um mitt síðasta ár var Hlífar dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ellefu brot. Meðal annars ók hann tvívegis undir áhrifum vímuefna, og í eitt skipti fundu lögreglumenn 4,36 grömm af amfetamíni í fórum hans.

Hann var að auki sakfelldur fyrir nokkur þjófnaðarbrot, m.a. fyrir að stela áfengispela úr Vínbúð ÁTVR og fimm kleinuhringjum úr verslun 10-11.

Þá braust hann inn í skrifstofuhúsnæði og einbýlishús í Hafnarfirði og stal tölvubúnaði á báðum stöðum. Og ennfremur stal hann seðlaskiptivél sem fest var við vegg á Landspítalanum. Reif hann vélina af veggnum og kastaði út um glugga á annarri hæð.

Hafnar alfarið bótakröfum

Hlífar Vatnar var rólegur við þingfestinguna í morgun, en æstist nokkuð þegar Helgi Magnús færði rök fyrir því að þinghaldið ætti að vera opið, og þá sérstaklega þegar hann sagði engin rök í málinu til að hlífa sakborningi.

Eins þegar kom að því að taka afstöðu til bótakrafna, þá brást Hlífar hinn versti við og jós fúkyrðum yfir réttargæslumann. Þurfti verjandi hans að grípa inn í og skýra frá því að Hlífar hafni alfarið bótakröfum fjölskyldu hinnar látnu.

Þar sem Hlífar játaði brot sitt eins og það kemur fram í ákæru einfaldast málið mjög. Verjandi hans sá ekki ástæðu til að skila inn skriflegri greinargerð og því var ákveðið að aðalmeðferð verði haldin 22. júní nk. og klárist samdægurs. Spurningunni um hvort fjölmiðlum verði leyft að fylgjast með verður þó ekki svarað fyrr en Hæstiréttur tekur afstæðu til kæru réttargæslumannsins á úrskurði héraðsdómara um að hafna kröfu um lokað þinghald.

Atburðurinn átti sér stað í þessu húsi við Skúlaskeið í …
Atburðurinn átti sér stað í þessu húsi við Skúlaskeið í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar
Hlífar Vatnar Stefánsson er fæddur í janúar 1989.
Hlífar Vatnar Stefánsson er fæddur í janúar 1989. mbl.is/Árni Sæberg
Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjanes.
Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjanes. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert