Fagnar stofnun vinnuhóps um afnám gjaldeyrishafta

Össur Skarphéðinsson og Stefan Füle
Össur Skarphéðinsson og Stefan Füle

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fagnaði stofnsetningu sameiginlegs vinnuhóps Íslands og ESB um afléttingu gjaldeyrishaftanna á fundi sínum með Stefan Füle stækkunarstjóra Evrópusambandsins í morgun.

„Frjálst flæði fjármagns er einn meginþátturinn í fjórfrelsinu á sameiginlegum innri markaði Evrópu og því liggur fyrir að ríki með gjaldeyrishöft geta ekki gerst aðilar að Evrópusambandinu. Afnám gjaldeyrishaftanna er því viðfangsefni aðildarviðræðnanna og er hlutverk vinnuhópsins að móta sameiginlegan skilning og meta leiðirnar út úr höftunum í samvinnu ESB og Íslands,“ segir í fréttatilkynningu.

Á fundinum ræddu utanríkisráðherra og Füle almennt um stöðu aðildarviðræðna Íslands og ESB og voru sammála um að í þeim hafi verið góður gangur. Samningar hafa hafist um tæplega helming samningskafla og er um þriðjungi lokið.

Utanríkisráðherra ræddi sérstöðu Íslands í sjávarútvegsmálum og ítrekaði þá afstöðu Íslands að hefja sem fyrst samningaviðræður um veigamestu málefni viðræðnanna s.s. gjaldmiðilsmál, sjávarútveg, landbúnað og byggðamál. Í þessum málum hefði Ísland bæði ríka hagsmuni og skýra sérstöðu sem taka þyrfti tillit til í aðildarsamningi.

Fundurinn í morgun markaði upphaf heimsóknar Stefans Füle til Íslands. Hann mun einnig hitta Steingrím J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og eiga fund með samráðshópi Íslands um samningaviðræðurnar við ESB. Eftir hádegi í dag mun Füle heimsækja Hellisheiðarvirkjun þar sem kynnt verður stefna Íslands um endurnýjanlega orku í samhengi við stefnu ESB í orkumálum. Í framhaldi af því mun hann heimsækja Hveragerði og Árborg og hitta bæjarstjóra og bæjarfulltrúa á fundi sem haldin er á vegum Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi. Á morgun mun Stefan Füle hitta forseta Alþingis og fulltrúa utanríkismálanefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert