Mál tveggja fyrrverandi lögreglumanna, sem hafa verið kærðir fyrir brot á þagnarskyldu í opinberu starfi mun samkvæmt heimildum Morgunblaðsins jafnvel leiða til þess að farið verði fram á að ákærur á hendur fyrrverandi stjórnendum Glitnis, sem ákærðir hafa verið, verði felldar niður.
Málið varðar vinnu sem mennirnir unnu í gegnum félag sitt, Pars Per Pars, fyrir þrotabú Milestone samhliða vinnu þeirra hjá sérstökum saksóknara. Samkvæmt upplýsingum öfluðu þeir víðtækra upplýsinga um Milestone og miðluðu þeim til þrotabúsins. Samhliða því unnu þeir skýrslu um greiðsluhæfi Milestone fyrir hrun sem lögð var fram fyrir dómstólum. Skiptastjórnendur Milestone töldu að mennirnir hefðu heimild frá sérstökum saksóknara til þessa verks, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Mennirnir munu hafa stofnað einkahlutafélagið fljótlega eftir að þeir hófu störf hjá embætti sérstaks saksóknara. Þeir munu hafa víðtæka reynslu á þessu sviði en annar þeirra er með doktorspróf í afbrotafræði og hinn er lögfræðingur. Þeir hafa báðir unnið sem sérfræðingar hjá lögreglunni.