Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás en hann misþyrmdi manni um fertugt í febrúar sl. í íbúð við Laugaveg. Tveir til viðbótar eru jafnframt ákærðir fyrir að koma manninum ekki til hjálpar þar sem hann lá ósjálfbjarga og lífshættulega slasaður. Þingfesting í málinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Umrædd árás átti sér stað 27. febrúar síðastliðinn. Árásarmaðurinn, fæddur 1984, sló fyrst karlmann fæddan 1971, fórnarlambið, í kviðinn, tók hann svo hálstaki og dró hann niður tröppur í stigagangi af fjórðu hæð húss þar til maðurinn blánaði í framan. Þá losaði árásarmaðurinn takið með þeim afleiðingum að maðurinn féll niður tröppurnar, niður á stigapall annarrar hæðar. Þar sparkaði árásarmaðurinn í, eða trampaði á, höfði hans.
Afleiðingar árásarinnar urðu þær að fórnarlambið hlaut lífshættulega höfuðáverka, höfuðkúpubrot, blæðingu undir höfuðkúpubroti, glóðarauga á vinstra auga auk fleiri áverka.
Árásarmaðurinn er, auk tveggja annarra karlmanna á svipuðum aldri, ákærður fyrir að hafa látið farast fyrir að koma manninum til bjargar eftir atlöguna. Mennirnir þrír fluttu fórnarlambið út úr stigaganginum og yfirgáfu hann ósjálfbjarga og lífshættulega slasaðan á gangstéttinni fyrir utan húsið.
Fórnarlambið í málinu gerir kröfu um tvær milljónir króna í miskabætur frá árásarmanninum, en einnig 95 þúsund krónur í bætur vegna kostnaðar kostnaðar af lögfræðiaðstoð við gerð bótakröfu og gagnaöflunar.