Grípi Seðlabankinn til þess ráðs að hækka vexti frekar gæti það haft veruleg áhrif á mánaðarlega greiðslubyrði af óverðtryggðum fasteignalánum.
Á þetta er bent í nýrri greinargerð Fjármálaeftirlitsins og tekið dæmi af því hvernig afborganir af 20 milljóna króna jafngreiðsluláni hækki um 25.503 krónur ef vextirnir hækka úr 6% í 8%. Á heilu ári jafngildir það um 300.000 kr., eða ríflega tveimur mánaðargreiðslum fyrir vaxtahækkun.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að FME telur söguna benda til vaxtahækkana. Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, telur miklar líkur á að vextir hækki.
„Miðað við þau vaxtakjör sem bjóðast í dag eru allar líkur á því að vextir verði hærri þegar kemur að endurákvörðun vaxta. Það er ljóst að yfirgnæfandi líkur eru á því að þeir verði hærri og í mínum huga gætu vextir vel orðið 1-3% hærri en í dag.“