Nýstúdentinn Guðrún Þóra Sigurðardóttir er dúx frá Kvennaskólanum í Reykjavík en hún útskrifaðist á laugardaginn af náttúrufræðibraut skólans með 9,84 í lokaeinkunn. Er það hæsta einkunn á stúdentsprófi í sögu skólans.
„Mér finnst mjög gaman að læra og stærðfræðin er aðallega í uppáhaldi. Ég held að hver verði að finna hvað hentar sér en mér finnst best að reyna að skilja allt námsefnið jafnóðum,“ segir Guðrún Þóra.
Hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir stúdentsritgerð sína sem fjallar um áráttu- og þráhyggjuröskun. Hugmyndina fékk hún þegar hún var að fletta í bók og fannst viðfangsefnið forvitnilegt. Framtíðin er enn nokkuð óráðin en Guðrún Þóra útskrifaðist á þremur árum og ætlar því að nýta tækifærið til setjast á skólabekk í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík í haust og sjá svo til með framhaldið.