Missti 50 lítra af blóði

Guðgeir Guðmundsson við þingfestingu ákærunnar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Guðgeir Guðmundsson við þingfestingu ákærunnar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Guðgeir Guðmundsson hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa veist að Skúla Eggert Sigurz framkvæmdastjóra lögmannsstofunnar Lagastoða þann 5. mars síðastliðinn. Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur nú fyrir stundu en í henni kemur m.a. fram að maðurinn sem Guðgeir réðst á missti alls 50 lítra af blóði og hlaut fjögur lífshættuleg sár.

Skúli lá í marga daga milli heims og helju á gjörgæsludeild eftir árásina. Í ákærunni segir að Guðgeir hafi stungið hann ítrekað í líkamann, með þeim afleiðingum að hann hlaut fimm stungusár, þar af fjögur sem voru hvert um sig lífshættuleg þótt aðrir áverkar hefðu ekki komið til.

Hann hlaut stungusár á hægri öxl, vinstra megin í brjóstkassa, aftarlega á hægri síðu og ofan við vinstri mjöðm, auk minni skurða á höndum og andliti. Segir í ákæru að hnífurinn hafi gengið „gegnum þindina og í lungu, bæði hægra og vinstra megin, í gegnum hægri nýra, í lifur og gallblöðru“ með þeim afleiðingum að Skúli missti alls 50 lítra af blóði í framhaldi af árásinni og meðan gert var að sárum hans. Fjarlægja þurfti hægra nýra hans og gallblöðru, bæði lungu hans sködduðust, tvö göt komu á þind auk áverka á lifur.

Guðgeir er einnig ákærður fyrir sérlega hættulega líkamsárás á Guðna Bergsson, starfsmann Lagastoða, en hann stakk hann með hnífi tvisvar í lærið.

Guðgeir hefur í yfirheyrslum hjá lögreglu játað á sig verknaðinn, en við þingfestinguna í dag óskaði verjandi Guðgeirs eftir fresti til að taka afstöðu til ákæruatriða og verður annað þinghald á fimmtudaginn. 

Um 5 lítrar af blóði eru í mannslíkamanum, en Skúla var gefið mikið af blóði meðan læknar unnu við að bjarga lífi hans. Samtals missti hann því um 50 lítra af blóði áður en tókst að stöðva blæðinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert