Félag prófessora við ríkisháskóla hefur sent frá sér ályktun vegna umkvörtunar Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni, stundakennara við guðfræðideild HÍ.
Í ályktuninni segir að í máli Vantrúar gegn Bjarna hafi akademískt frelsi háskólakennarans ekki verið virt sem skyldi en það sé grundvallarþáttur í háskólastarfinu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Málið hófst í febrúar 2010 þegar Vantrú kærði kennslugögn Bjarna til siðanefndar skólans. Félag prófessora gagnrýnir að stjórn Vantrúar hafi beint kvörtunum sínum til aðila utan námskeiðsins en ekki til kennarans sjálfs. Þá er siðanefnd HÍ gagnrýnd fyrir að hefja formlausar og óljósar viðræður við fulltrúa Vantrúar í mars 2010 án þess að leita eftir upplýsingum, sjónarmiðum og röksemdum frá kennaranum og fyrir að hafa ekki gengið úr skugga um hvort og þá með hvaða hætti umrætt mál varðaði siðareglur Háskólans.
„Aðkoma siðanefndar HÍ að málinu leiddi til trúnaðarbrests sem að mati óháðrar rannsóknanefndar um málið var meginástæða þess að ekki tókst að ljúka málinu,“ segir í ályktuninni. Hún styður niðurstöðu óháðu rannsóknarnefndarinnar sem var skipuð af háskólaráði og falið að skoða störf siðanefndar HÍ í þessu máli. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar var áfellisdómur yfir siðanefndinni.