Hæstiréttur hafnaði kröfum Samherja

Húsleit hjá Samherja á Akureyri.
Húsleit hjá Samherja á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hæstiréttur hefur vísað frá dómi kröfu Samherja um að húsleit og haldlagning gagna á vegum Seðlabanka Íslands á tveimur starfstöðvum Samherja yrðu dæmdar ólögmætar. Jafnframt vísaði Hæstiréttur frá héraðsdómi kröfu Samherja þess efnis að Seðlabankanum verði gert að hætta rannsókn sinni á meintum brotum Samherja og aðila, tengdum honum, á lögum um gjaldeyrismál.

Þá hafnaði Hæstiréttur kröfum Samherja um að Seðlabankanum yrði gert að afhenda öll haldlögð og afrituð gögn og eyða öllum afritum haldlagðra gagna, en auk þess að Seðlabankanum yrði, að því frágengnu, gert að skila tilteknum gögnum sem hald var lagt á við húsleitina.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður hafnað þessum kröfum Samherja.

„Niðurstaðan kemur náttúrlega á óvart. Það virðist vera alveg sama hvernig málatilbúnaðurinn er, ef aðgerðirnar eru afstaðnar þá virðist ekki vera hægt að bera þær undir dómstóla sem slíkar,“ segir Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður hjá LEX og lögmaður Samherja í málinu. Helgi bætir við að þetta þýði í raun og veru að það sé ómögulegt að bera neitt undir dómstóla í þessu sambandi vegna þess að eðli málsins samkvæmt taki húsleitir jafnan mun skemmri tíma heldur en það tekur að koma málinu fyrir dómstóla.

Að sögn Helga vekur það athygli að Hæstiréttur skuli ekki tjá sig um ýmis mikilvæg atriði sem Samherji byggði á. „Hæstiréttur virðist ekki tjá sig mikið um það að gögn sem Seðlabankinn lagði fram í upphafi hafi verið bæði villandi og röng,“ segir Helgi.

Helgi gagnrýnir sérstaklega afstöðu dómsins varðandi það atriði að Samherja var ekki gefinn kostur til að tjá sig fyrir héraðsdómi þegar málið var tekið þar fyrir. „Í dóminum er einnig talað um það að það hafi að vísu verið brot á réttindum Samherja að vera ekki boðaðir til þinghaldsins, þegar þetta var tekið fyrir, en það er samt ekki talið það merkilegt að það breyti neinu, þannig að maður spyr sig hvort það megi gefa slíka afslætti af mannréttindum.“

Helgi Jóhannesson.
Helgi Jóhannesson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert