Aðalfundur Framsýnar - stéttarfélags hafnar alfarið hugmyndum Landsvirkjunar og stjórnvalda um að flytja út orku með sæstreng frá Íslandi til Evrópu. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins í kvöld.
Þar segir að Íslendingum beri að ganga vel um þær náttúruauðlindir sem þeir búi yfir, með það að markmiði, að nýta þær með skynsamlegum hætti til atvinnusköpunar og framfara á Íslandi.
„Komi til þess að náttúruauðlindir á Íslandi verði virkjaðar til atvinnusköpunar í Evrópu mun það án efa draga úr hagvexti og atvinnuuppbygginu á Íslandi með hækkandi raforkuverði til fyrirtækja og heimilanna í landinu. Í því mikla endurreisnarstarfi sem framundan er eftir hrunið er ábyrgðarhluti að ætla að mæta því með því að selja orkuna til útlanda. Því mótmælir aðalfundur Framsýnar - stéttarfélags.“