Sérstaklega hættulegar líkamsárásir

Þeir Annþór og Börkur voru nýverið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til …
Þeir Annþór og Börkur voru nýverið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 13. júní nk., en þeir eru grunaðir um að vera valdir að láti fanga á Litla Hrauni fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Ómar

Mál ríkissaksóknara á hendur Annþóri Kristjáni Karlssyni, Berki Birgissyni og átta öðrum karlmönnum verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á morgun. Sérstaklega hættulegar líkamsárásir, ólögmæt nauðung, frelsissvipting og tilraunir til fjárkúgunar eru á meðal ákæruefna.

Ákæra ríkissaksóknara er í fimm liðum. Í þeim fyrsta eru þeir Annþór, Börkur og sjö aðrir sakaðir um að hafa ráðist vopnaðir á fjóra menn í íbúð í Mosfellsbæ í janúar sl.

Fram kemur í ákærunni að þeir Annþór og Börkur hafi farið fyrst inn í íbúðina, en þeim var boðið inn af einum fjórmenninganna. Hinir sjö, sem voru með Annþóri og Berki í slagtogi, biðu fyrir utan uns Annþór gaf þeim merki um inngöngu með því að hringja í einn þeirra. Mönnunum var síðan hleypt inn í heimildarleysi og í sameiningu réðust þeir allir á fjórmenningana. Segir að árásin hafi verið ákveðin fyrirfram.

Slegnir með golfkylfum og handlóðum

Fram kemur í ákærunni, að mennirnir sem urðu fyrir árásinni hafi verið slegnir ítrekað víðs vegar um líkama og í höfuð með hættulegum vopnum og bareflum, m.a. golfkylfum, sleggju með haus úr harðplasti og handlóðum. Þá segir í ákærunni að brotaþolarnir hafi hvorki átt kost á því að komast undan árásarmönnunum né verjast.

Mennirnir hlutu allir áverka. Einn þeirra hlaut m.a. þverbrot í gegnum nærhluta sköflungsbeins á hægri fæti. Þá hlaut hann sex cm langan skurð á framanverðum sköflungnum og brot á hægri hnéskel. Árásin þykir sérstaklega hættuleg og telst varða við 2. mgr. 218 gr. almennra hegningarlaga.

Einn mannanna sem ráðist var á fer fram á að Annþór, Börkur og tveir menn til viðbótar greiði sér 150.000 kr. í skaðabætur og 2,5 milljónir kr. í miskabætur vegna árásarinnar.

Neyddur til kasta þvagi yfir félaga sinn

Í öðrum lið ákærunnar eru þeir Annþór, Börkur, tveir meðákærðir í málinu auk ókunnugra manna sakaðir um sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa ráðist vopnum búnir á þrjá menn í Reykjavík í desember sl. Sú árás var einnig ákveðin fyrirfram. Börkur er m.a. ákærður fyrir að slá mann með trébarefli í hnakka þannig að maðurinn féll í gólfið og hlaut skurð.

Árásarmennirnir neyddu annan mann til að leggjast á gólfið. Í ákærunni kemur fram að þeir hafi staðið á höndum fórnarlambsins og haldið því þannig á meðan kastað var yfir hann þvagi. Þá er Börkur sakaður um að hafa slegið manninn nokkrum höggum á hnakkann með trébarefli og rifið í eyra mannsins.

Árásarmennirnir eru einnig sakaðir um ólögmæta nauðung með því að hafa neytt þriðja manninn til að kasta af sér þvagi yfir vin sinn, sem lá á gólfinu líkt og greinir frá að ofan.

Þá eru mennirnir ákærðir fyrir frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar með því að hafa krafist þess að einn mannanna greiddi þeim hálfa milljón kr. daginn eftir. Annar þeirra átti svo að greiða þeim 200.000 kr. á mánuði um ótiltekinn tíma. Var mönnunum hótað frekara ofbeldi ef þeir yrðu ekki við kröfum þeirra.

Segir í ákærunni að þremenningarnir, sem urðu fyrir árásinni, hafi ekki átt kost að komast út úr íbúðinni vegna hótana, ógnana, nauðungar og ofbeldis. Voru þeir þarna inni í allt að klukkutíma en árásarmennirnir yfirgáfu ekki staðinn fyrir en fórnarlömbin samþykktu að verða við kröfum þeirra um greiðslu fjárins.

Í þriðja ákærunnar eru tveir karlmenn sakaðir um hlutdeild í þeim brotum sem er lýst í öðrum lið ákærunnar.

Hótun um ævilanga skuld

Í fjórða lið ákærunnar er Annþór ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, sem átti sér stað í Hafnarfirði í október sl. Fram kemur að Annþór hafi veist að tveimur mönnum og slegið þá í andlit og líkama nokkrum höggum. Annþór er sakaður um að hafa tekið um háls annars mannsins með kverkataki og haldið honum í taki uppi við vegg og ekki sleppt takinu fyrr en maðurinn missti meðvitund. Þá lét hann manninn falla í gólfið og sló hann ítrekað í andlit þar sem maðurinn lá.

Auk þess að vera sakaður um að slá hinn manninn í andlit og líkama er Annþóri gert að sök að hafa skipað manninum að leggjast á gólfið og svo sparkað í líkama hans og höfuð.

Þá er Annþór sakaður um frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar með því að hafa krafið mennina tvo um að greiða sér 500.000 kr. hvorn um sig. Segir í ákærunni að mennirnir hafi ekki komist út úr húsnæðinu fyrr en þeir höfðu samþykkt að verða við kröfu Annþórs.

Þá hótaði Annþór mönnunum frekara ofbeldi og fjárkúgun ef þeir segðu frá brotunum með þeim orðum að þeir færu í þá í áskrift hjá honum, sem væri ævilöng skuld við hann.

Í fimmta lið ákærunnar eru tveir menn ákærðir fyrir hlutdeild í þeim brotum sem lýst er í fjórða liðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert