Hlé var gert á störfum þingsins um klukkan ellefu vegna fundar forsætisnefndar Alþingis þar sem til umræðu eru ummæli sem Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, lét falla í ræðustól þingsins í nótt um að honum virtist einn þingmanna stjórnarandstöðunnar vera undir áhrifum áfengis.
Um er að ræða framhald af fundi forsætisnefndar sem boðað var til áður en þingfundur hófst í dag en ekki tókst að ljúka honum þá. Gert er ráð fyrir að þingfundur hefjist á ný klukkan 12:15.
Björn Valur staðfesti við upphaf þingfundar í morgun að þar hefði hann átt við Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, en Jón hefur alfarið vísað ummælunum á bug. Bað Björn Valur Jón afsökunar í morgun í ræðustól Alþingis og dró ummælin ennfremur til baka. Samkvæmt heimildum mbl.is vöktu ummæli Björns Vals mikla reiði á meðal margra þingmanna og voru þeir slegnir vegna þeirra.
Þingflokksformenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þau Ragnheiður Elín Árnadóttir og Gunnar Bragi Sveinsson, hafa einnig óskað eftir því að málið verði rætt á fundi þingflokksformanna og forseta Alþingis en án þátttöku Björns Vals vegna þess hvers eðlis málið er. Búist er við að sá fundur fari fram síðar í dag.
Frétt mbl.is: Björn Valur baðst afsökunar
Frétt mbl.is: Þingmenn slegnir yfir ummælum Björns
Frétt mbl.is: Sagði alþingismann vera drukkinn