Fer fram á sextán ára fangelsi

Guðgeir Guðmundsson leiddur í dómssal í morgun.
Guðgeir Guðmundsson leiddur í dómssal í morgun. mbl.is

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari fór í dag fram á sextán ára fangelsi yfir Guðgeiri Guðmundssyni sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps. Hún sagði hreint ótrúlegt að fórnarlamb Guðgeirs, Skúli Eggert Sigurz, hefði lifað atlögu hans af. Allt hefði gengið upp sem gat gengið upp.

Aðalmeðferð yfir Guðgeiri lauk á fjórða tímanum í dag en hann játaði að hafa ráðist á Skúla Eggert á skrifstofu hans að morgni 5. mars sl. og stungið hann fimm sinnum með hníf. Einnig að hafa veitt Guðna Bergssyni tvö stungusár.

Þrátt fyrir játningu hafnar Guðgeir því að til hafi staðið að bana Skúla. Verjandi hans, Brynjólfur Eyvindsson, sagði við málflutning í dag, að því væri ekki rétt að ákæra hann fyrir tilraun til manndráps. Um væri að ræða sérstaklega hættulega líkamsárás. Að því sögðu hafnaði hann kröfu ríkissaksóknara um 16 ára fangelsi og sagði fimm ára fangelsi hæfilegt.

Þá krafðist Brynjólfur sýknu fyrir skjólstæðing sinn af ákæru um stórfellda líkamsárás á Guðna Bergsson. Sagði hann Guðgeir hafa stungið Guðna óvart og enginn ásetningur hefði legið þar að baki.

Þaulskipulögð atlaga að saklausum manni

Áður en að Brynjólfi kom fór Sigríður yfir kröfur ákæruvaldsins. Hún sagði að um efsta stig ásetnings væri að ræða og Guðgeir ætti sér hvorki málsbætur né ætti nokkuð að koma til refsilækkunar. Hún vísaði í nýlegt dómafordæmi þar sem karlmaður var dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Í þessu máli væru fórnarlömbin tvö og nokkrir aðrir þættir kæmu til refsihækkunar.

Sigríður sagði Guðgeir hafa ákveðið það um það bil viku áður að hann ætlaði að fara á þessa tilteknu lögmannsstofu og valda þar skaða. Var það vegna bréfs sem hann fékk um að til stæði að bjóða upp íbúð hans, vegna útistandandi skulda. Þá hefði Guðgeir lýst því að kvöldið áður hefði hann ákveðið að taka með sér hníf. Hann hefði farið til vinnu með hnífinn en fengið að skreppa frá.

Rétt fyrir klukkan tíu mætti Guðgeir á lögmannsstofuna. Skúli sem var á leið út tekur eftir honum á ganginum og býður inn á skrifstofu. Þar fer Skúli yfir mál hans, býður þrjátíu þúsund króna afslátt af áttatíu þúsund króna kröfu og skrifar Guðgeir undir það. Skúli stendur upp og býður fram hönd sína. Guðgeir tekur í hana en fer um leið með vinstri hönd ofan i úlpuvasa, nær í flugbeittan hníf með 13 cm blaði og stingur Skúla í síðuna.

Sigríður sagði það hafa verið úthugsað hjá Guðgeiri að geyma hnífinn í vasa vinstra megin á úlpu sinni til þess einmitt að beita honum við aðstæður sem þessar.

Skúli finnur ekki fyrir stungunni en sér að honum er farið að blæða. Hann spyr Guðgeir hvað hann sé að gera og svarar hann því til að hann hati lögfræðinga. Skúli segir honum að hann sé ekki lögfræðingur og við það æsist Guðgeir ennþá frekar.

Guðgeir stakk Skúla fimm sinnum og voru fjórar stungurnar taldar lífshættulegar. Áverkarnir voru mjög djúpir eða allt að 15 cm og því ljóst að Guðgeir beitti miklu afli. Sigríður sagði það með hreinum ólíkindum að Skúli hefði lifað atlöguna af. Og Guðgeiri mátti ekki aðeins vera það ljóst að bani gæti hlotist af heldur væri það líklegast.

Hún sagði Guðgeir hafa reynt að fá útrás fyrir reiði sína og Skúli orðið fyrir. Ef Guðni Bergsson hefði ekki komið að í miðri atlögunni væri ekki víst að Skúli hefði getað gefið skýrslu fyrir dómi.

Sjálfsvígshugsanir breyttust í reiði

Brynjólfur sagði að rekja mætti atlöguna til uppsafnaðrar reiði, vegna skulda hans og reiði vegna almenns ástands í þjóðfélaginu. Þá mætti rekja hana að miklu leyti til eineltis sem hann hefði orðið fyrir í æsku, á meðan hann stundaði nám í Grindavík.

Hann sagði Guðgeir lítið hafa sofið vikurnar fyrir árásina og sjálfsvígshugsanir hefðu sótt á hann vikuna áður sem hefðu breyst í reiði. Nóttina fyrir árásina hefði hann aðeins sofið um klukkustund og því var hann almennt í mjög slæmu hugarástandi.

Brynjólfur hafnaði því alfarið að ásetningur hefði staðið til að deyða heldur aðeins meiða. Þetta fengi stoð í framburði hans sjálfs hjá lögreglu þegar hann fékk að vita um líðan Skúla, og að honum liði betur. Þá sagði Guðgeir það gott að heyra.

Þá benti hann á að Guðgeir tæki ábyrgð á gjörðum sínum, en færi fram á að litið væri til þess við ákvörðun refsingar í hvaða ástandi hann var. Þá hefði hann ekki sýnt mótþróa við handtöku og sýndi merki iðrunar.

Brynjólfur sagði Guðgeir hafna bótakröfum í málinu en gaf engar sérstakar ástæður fyrir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka