„Vildi að ég hefði aldrei hitt Skúla“

Guðgeir Guðmundsson í fylgd lögreglumanna.
Guðgeir Guðmundsson í fylgd lögreglumanna. mbl.is

Málsatvik morguninn 5. mars sl., þegar Guðgeir Guðmundsson réðst á Skúla Eggert Sigurz með hnífi, eru svo gott sem óumdeild. Erfiðara er að skýra með skynsamlegum hætti hvers vegna Guðgeir réðst á Skúla eða hverju hann hugðist áorka með árásinni. Guðgeir situr í fangelsi næstu árin. Hversu lengi kemur í ljós á næstu vikum.

Aðalmeðferð í málinu fór fram við Héraðsdóm Reykjavíkur í dag og var málið dómtekið á fjórða tímanum. Þá hefur fjölskipaður dómurinn fjórar vikur til að kveða upp dóm. Miðað við hvernig málið er vaxið má þykja ólíklegt að það taki svo langan tíma.

Þar sem málið hefur verið dómtekið er ekki úr vegi að stikla á stóru um það sem fram kom við aðalmeðferðina þegar kemur að Guðgeiri sjálfum og þeim sérfræðingum sem mátu hann eftir árásina.

Stjórnlaus eftir lítið bros

Eins og áður gerði Guðgeir enga tilraun til að hylja sig þegar hann var leiddur í handjárnum inn í dómsal. Þá sýndi hann yfirleitt engin svipbrigði meðan á skýrslutöku yfir honum stóð. Engu líkara var en Guðgeir væri á sterkum deyfilyfjum, svör hans báru þess merki. Það var þó ekki raunin. Reyndar nefndi geðlæknir sem kom fyrir dóminn að það sem væri helst óvenjulegt þegar kæmi að Guðgeiri er að hann hefur aldrei verið í fíkniefnaneyslu. Slíkt sé mjög algengt með menn sem greindir hafa verið eins.

Dómsformaður hóf daginn á því að spyrja Guðgeir út í atburðina morguninn 5. mars. Hann sagðist hafa farið til vinnu og reynt að fela að hann væri ósofinn. Snemma sagði hann að ef hugsunin hefði verið skýr hefði hann ekki tekið með sér hnífinn. „Ég er feginn að þetta varð ekki verra, að það varð ekki varanlegur skaði,“ sagði Guðgeir um  afleiðingar árásar sinnar.

Hnífinn tók Guðgeir úr eldhúsi sínu og er um flugbeittan hníf að ræða, með 13 cm blaði, sem aðallega er notaður við gerð sushi. Hnífinn setti hann í úlpuvasa áður en hann hélt til vinnu.

Að mestu hefur verið greint frá því sem gerðist eftir að á lögmannsstofuna Lagastoð var komið, en þaðan hafði Guðgeir fengið bréf vegna útistandandi skulda, og stóð til að selja íbúð hans á uppboði greiddi hann ekki. Þegar Skúli hafði farið yfir mál Guðgeirs og lækkað skuld hans verulega stóðu báðir upp. Skúli rétti út hönd sína og Guðgeir tók í hana. „Við tókumst í hendur og þá missti ég stjórn á skapi mínu,“ sagði Guðgeir og var beðinn um nánari skýringu á því. „Eins og ég sagði við sálfræðinginn, þá fannst mér þegar við tókumst í hendur að ég sæi örlítið, lúmskt bros. eins og þegar einhver segir: „Flott, ég náði þér!“ Ég held að það hafi sett stjórnleysið af stað.“

Aldrei heyrt neitt gott um lögfræðing

Þegar Guðgeir varð eigin stjórnleysi að bráð fór hnífurinn á loft og enduðu tveir menn sárir, Skúli Eggert og Guðni Bergsson, samstarfsmaður hans, sem kom til bjargar. Guðni mun ná sér að fullu en Skúli glímir enn við áverka sína sem voru gríðarlega alvarlegir. Því hefur verið haldið fram að hefði árásin orðið annars staðar á landinu hefði viðkomandi ekki lifað af. Einnig ef hnífnum hefði verið beitt á örlítið annan hátt, en aðeins vantaði millimetra í hjartað og einnig lungnaslagæð.

Hnífurinn fór hins vegar í lifur, nýru, lungu og þind. Skúla blæddi gríðarlega og gekk illa að stöðva blæðinguna. Þurfti að lokum að taka úr honum annað nýrað. Þegar upp var staðið var búið að skipta um allt blóð í líkama Skúla átta sinnum. Svo mikil blóðgjöf getur ein og sér valdið lífshættu.

Eftir að Guðgeir rak hnífinn í síðu Skúla spurði sá síðarnefndi hvers vegna. Guðgeir svaraði því til að hann hataði lögfræðinga. Þetta er sérlega athyglisvert því þegar hann var spurður að því hvort hann hefði farið illa út úr samskiptum sínum við lögfræðinga sagði Guðgeir: „Nei, ég hef aldrei átt í samskiptum við þá. Eftir því sem ég hef heyrt um þessa starfsstétt hef ég reynt að forðast hana.“

Guðgeir sagðist ekki hafa heyrt neitt gott um lögfræðinga og minntist á að hann hefði heyrt reynslusögur frá vinum, ættingjum og vinnufélögum. Hann rakti eina slíka sögu af afa sínum sem tók ráðleggingum lögfræðings og stóð uppi fátækari maður.

Þá kom fram hjá geðlækni sem kom fyrir dóminn að þetta ætti ekki aðeins við um lögfræðinga heldur eiginlega bara alla fræðinga. Þannig treysti hann til dæmis ekki læknum.

Trúir ekki á samskipti fólks

Í skýrslu sama geðlæknis kom fram að Guðgeir er einfari sem trúir ekki á samskipti manna. Hann sé með persónuleikatruflun og með veilu varðandi tilfinningalega þætti og persónugerð. Hann hafi aldrei rætt vandamál sín við fjölskyldu sína og sé afar tortrygginn. Hann hafi fyrst fundið fyrir ofbeldiskennd þegar hann réðst á kvalara sinn í 7. bekk grunnskóla, en sá hafi þá lagt hann í einelti í nokkur ár.

Sjálfur lýsti Guðgeir því þannig að hann hefði misst stjórn á skapi sínu og hent kvalara sínum í jörðina. Þegar hann áttaði sig á hvað hann var að gera hefði hann verið með hægri fótinn yfir höfði hans eins og hann væri að fara að trampa á því. „En ég náði stjórn og gekk í burtu.“

Geðlæknirinn sagði Guðgeir sjálfan hissa á því að þessi ofbeldiskennd hefði aldrei horfið. Sálfræðingur sem kom fyrir dóminn sagði Guðgeir hafa tjáð sér að hann óttaðist að þetta kæmi fyrir aftur.

Þá kom fram í máli geðlæknisins að Guðgeir ætti afar erfitt með að sýna tilfinningar. Það gæti til dæmis skýrt þann rugling sem sneri að eftirsjá hans.

Sjálfur sagði Guðgeir þegar verjandi hans spurði hvernig hann liti á málið í dag, að hann vildi að þetta hefði aldrei gerst, að hann hefði aldrei keypt bifhjól sem hann hætti að gera greitt af og að hann hefði haldið áfram að spila tölvuleikinn World of Warcraft. „Ég sé ekki eftir því að hafa farið á lögfræðistofuna, en ég sé eftir að hafa skrifað undir þetta lán. Ég vildi ég hefði aldrei hitt Skúla.“

Þessi orð greip ríkissaksóknari á lofti og spurði því næst hvort hann sæi eftir því að hafa veitt Skúla áverkana. Því játti Guðgeir. „Þetta er ekki eitthvað sem maður á að gera, þetta er eitthvað sem enginn á að gera.“

Sálfræðingurinn sem kom fyrir dóminn sagðist telja að hann sæi ekki eftir árásinni. Hann hafi margoft sagt það í viðtölum að hann sjái ekki eftir gjörðum sínum. Hins vegar segist hann einnig sjá eftir þessu og þá í tengslum við það að svona geri menn ekki. Sálfræðingurinn sagði það því ekki eftirsjá heldur frekar „prinsipp mál“ að ráðast ekki á fólk.

Veikur maður en sakhæfur

Ljóst má þykja af því sem fram kom við aðalmeðferðina í dag að Guðgeir Guðmundsson er veikur maður. Geðlæknirinn sagði hann ekki haldinn geðsjúkdómi en hann sé haldinn geðrænum vanda. Og sálfræðingurinn segir að hann hafi alvarlega persónuröskun og langvarandi alvarlega erfiðleika í samskiptum. Hann sé kaldlyndur, treysti engum og glími við langvarandi reiði sem ekki hafi verið unnið úr.

Þrátt fyrir ofangreint var frá upphafi ekki efast um sakhæfi Guðgeirs. Geðlæknirinn staðfesti það og að hann hefði alla möguleika á að bæta sig. Nokkuð þyrfti þó til. Sálfræðingurinn tók að einhverju leyti undir það. Sagði Guðgeir ekkert hafa unnið úr sínum málum og sökum þess gæti hann verið hættulegur.

Verjandi Guðgeirs tók fram að hann gerði sér fyllilega grein fyrir því að hann myndi sitja í fangelsi næstu árin. Hann vildi taka ábyrgð á gjörðum sínum. Hins vegar ætti að virða það honum skammvinnt ójafnvægi á brotastund til refsilækkunar.

Fjölskipaðs héraðsdóms bíður að meta hvort fallist verði á kröfu ríkissaksóknara um sextán ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps eða kröfu verjanda Guðgeirs um fimm ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás.

Lagastoð.
Lagastoð. Sigurgeir Sigurðsson
Frá lögmannsstofunni.
Frá lögmannsstofunni. mbl.is/Sigurgeir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert