Góður árangur af hreyfiseðlum

Hreyfing er holl.
Hreyfing er holl. mbl.is/ Rax

Rétt rúmlega 100 manns hafa nýtt sér hreyfiseðil sem úrræði, en tilraunaverkefni sem gengur út á að læknar ávísi hreyfingu á sjúklinga hefur nú staðið yfir í rúmlega ár á fimm heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Héðinn Jónsson, sjúkraþjálfari og samhæfingaraðili verkefnisins, segir að árangurinn af kerfinu hafi verið mjög góður. Velferðarráðuneytið hefur veitt styrk til þess að halda verkefninu áfram í annað ár.

Árangur af verkefninu er mældur í svokallaðri meðferðarheldni, það er hversu vel fólki gengur að hreyfa sig. Héðinn segir að af þeim sem hafi leitað til sín séu um 70% ennþá að stunda reglulega hreyfingu og líkamsrækt, sem þykir vera mjög góður árangur. Þeir sem nýti sér úrræðið standi sig því vel. 

Aðspurður um eftirfylgni í kerfinu segir Héðinn að hann fylgist vel með meðferðinni hjá þeim sem leiti til hans: „Ég fylgi fólki eftir og býð því að það skrái hreyfinguna í gegnum heimasíðu hjá okkur, og þá get ég séð hvort fólk sé að ná markmiðum sínum og get þá haft samband við það í gegnum síma eða tölvupóst.“ Einhverjir sjúklingar vilji síðan eftir að byrjað er halda hreyfingunni áfram á eigin vegum, og þá er kannað hvort þeir séu ennþá virkir.

Héðinn segir að hreyfingu hafi í langflestum tilfellum verið ávísað til fólks með svokallaða lífsstílssjúkdóma, en einnig hafi í einhverjum tilfellum verið vísað til fólks með þunglyndi, en rannsóknir þykja renna stoðum undir það að hreyfing geti virkað vel sem meðferðarform við vægu þunglyndi. Héðinn vísar til þess að Bretar og Svíar hafi nýtt sér hreyfingu sem meðferðarform við þunglyndi og að það hafi gefist vel.

Héðinn telur að þetta meðferðarform sé komið til að vera: „Það er mjög þarft fyrir heilbrigðiskerfið að geta boðið upp á hreyfingu sem valmöguleika fyrir fólk til að takast á sín vandamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert