Í vikunni var byrjað að fara með ferðamenn niður í Þríhnjúkagíg á Bláfjallasvæðinu. Ferðirnar hafa vakið mikla athygli og í vikunni hafa erlendir fjölmiðlar á borð við breska ríkisútvarpið BBC og breska dagblaðið the Independent farið niður í gíginn sem hefur legið í dvala í 4000 ár.
Að sögn er þetta eina eldfjallið í veröldinni sem ferðamönnum gefst færi á að skoða að innan og það hefur vakið athygli þar sem dæmi eru um að ferðamenn hafi gert sér ferð til landsins eingöngu til að síga ofan í gíginn en um 120 metrar eru frá toppi gígsins niður á botn þar sem hægt er að ganga um og virða fyrir sér marglitt bergið.
Bara í sumar
Ferðirnar ofan í gíginn eru einungis áætlaðar í sumar þar sem meðal annars er verið að meta hver umhverfisáhrifin eru, en í athugun er að byggja á svæðinu aðstöðu fyrir ferðamenn sem yrði einstök á heimsvísu. Ef tilskilin leyfi fást er ætlunin að grafa niður í jörðina skammt frá fellinu þar sem yrði aðstaða til að taka á móti ferðamönnum en þaðan yrðu svo grafin göng inn í gíginn þar sem komið væri inn í hellinn á svalir sem yrðu í nokkurra tuga metra hæð og þaðan yrði svo stigi niður á botninn.
Einar Stefánsson, verkfræðingur hjá VSÓ og fjallgöngumaður, er einn þeirra sem standa að ferðunum í gíginn. Hann segir að mannvirkið yrði algerlega einstakt þar sem hvergi hefðu verið grafin göng inn í eldfjall með sama hætti og með því að tryggja gott aðgengi að slíkum stað í nágrenni borgarinnar væri mögulegt að vernda aðra staði þar sem umgengni um náttúruperlur er ekki stýrt með sama hætti.