Sprengjunni, sem sprakk undir bíl í Kópavogi í nótt, var að öllum líkindum komið fyrir milli afturhjóla bifreiðarinnar. Skemmdir urðu á bílnum en vegfarandi sem átti leið hjá snemma í morgun segir að afturstuðari bílsins hafi verið mikið skemmdur. Þá brotnaði rúða í nærliggjandi húsi.
Bifreiðin stóð fyrir utan einbýlishús en eigandi hans býr í húsinu.
Íbúi í hverfinu sem mbl.is náði tali af segist hafa vaknað við mikinn hvell á fjórða tímanum í nótt. Viðmælendum ber þó ekki saman um nákvæma tímasetningu enda voru flestir enn hálfsofandi þegar sprengjan sprakk.
Nágrannar héldu margir að þeir hefðu vaknað við þrumuveður en þeim brá heldur betur í brún þegar þeim varð litið út í morgun því lögregla var með mikinn viðbúnað á staðnum.
Götunni var lokað fyrir allri umferð um tíma og bíllinn var fjarlægður af lögreglu um klukkan 7 í morgun og er nú til rannsóknar.