Ákæra á hendur manni sem gefin er að sök stórfelld líkamsárás í og við íbúð sína við Laugaveg í febrúar virðist að öllu leyti byggð á framburði eins karlmanns hjá lögreglu. Sá hafði aðra sögu að segja við aðalmeðferðina í morgun og skýrði það með því að hann hefði verið haldinn ranghugmyndum af neyslu vímuefna.
Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag fer aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins á hendur þremur einstaklingum fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Einn er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás en allir fyrir að koma fórnarlambinu ekki til bjargar eftir árásina.
Mennirnir tveir sem aðeins eru ákærðir fyrir að yfirgefa fórnarlambið þar sem það lá ósjálfbjarga á Laugavegi komu fyrir dóminn í morgun. Framburður annars þeirra hefur verið stöðugur frá byrjun og í samræmi við framburð meints árásarmanns. Hinn greindi hins vegar frá ofbeldi hjá lögreglu en dró þá frásögn til baka.
„Mig rámar í ofbeldi en eftir á að hyggja, þegar ég fór að hugsa þetta betur er ég ekki viss um að það sé rétt,“ sagði maðurinn og einnig að þegar þeir skildu við manninn hefði hann verið með meðvitund.
Saksóknari í málinu, Helgi Magnús Gunnarsson, fór lið fyrir lið í gegnum framburð mannsins hjá lögreglu og þráspurði hvort ekki væri rétt greint frá. „Þú sagðir hjá lögreglu að eftir að þið komuð aftur upp í íbúðina hafið þið þrír komið ykkur saman um að samræma söguna, og að þetta hafi þá átt að vera hans eigin skaði. Það rímar vel við söguna sem þú segir í dag. Var þetta þá tilbúningur hjá lögreglu einnig?“
Maðurinn sagði rétt að það væri tilbúningur og hafnaði því svo að breyttur framburður væri tilkominn vegna hótana.
Fórnarlambið í málinu kom einnig fyrir dóminn. Sagðist maðurinn aðeins óljóst muna eftir gleðskap umrætt kvöld, ekkert eftir átökum inni í íbúðinni en þó að hafa fengið högg á höfuðið.
Maðurinn hlaut þetta kvöld lífshættulega höfuðáverka, höfuðkúpubrot, blæðingu undir höfuðkúpubroti, glóðarauga á vinstra auga, auk minni áverka. Hann gerir þá kröfu í málinu að meintur árásarmaður greiði sér tvær milljónir króna í miskabætur.
Hvað varðar ástandið eftir árásina sagði maðurinn það slæmt. Hann eigi við minnistruflanir að etja, erfitt með tal og andleg líðan sé mjög slæm.
Einnig kom fyrir dóminn þrítugur karlmaður sem bæði þekkir til fórnarlambsins og meints árásarmanns. Hann var staddur í umræddu samkvæmi og staðfesti að fórnarlambið hefði verið drukkið, með leiðindi og hefði stolið úr íbúðinni. Hann hafnaði því einnig alfarið að maðurinn hefði verið beittur ofbeldi. „Ef ég hefði orðið var við ofbeldi hefði ég gert athugasemd við það. [Fórnarlambið] er vinur minn. Það var kannski smá æsingur, enda spriklaði hann eins og fiskur þegar verið var að vísa honum út.“
Hann lýsti því einnig að honum hefði ekki þótt þetta tiltökumál enda eðlilegur viðburður að umræddum manni sé vísað út. Vísaði hann þá meðal annars til veitingastaðanna Mónakó og Monte Carlo þar sem umræddur maður væri í banni. Þá hefði enginn verið æstur í samkvæminu, þar hefði verið nokkuð „mjúk stemning“.