Skófarið sem skiptir sköpum

Dómsalur 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómsalur 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ernir Eyjólfsson

Far í andliti karlmanns sem fluttur var lífshættulega slasaður á Landspítala aðfaranótt mánudagsins 27. febrúar kemur til með að skipta sköpum þegar ákvörðun verður tekin um sýknu eða sakfellingu í máli ákæruvaldsins gegn meintum árásarmanni. Aðalmeðferð í málinu lauk síðdegis.

Eins og greint hefur verið frá á mbl.is neitaði meintur árásarmaður sök í málinu þegar hann gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Ákæran er að mestu byggð á skýrslu sem einn maður gaf hjá lögreglu en hann bar að öllu leyti framburð sinn til baka í morgun, og bar við að hann hefði haft ranghugmyndir við skýrslugjöfina vegna langvarandi vímuefnaneyslu.

Meintum árásarmanni, sem fæddur er árið 1984, er gefið að sök að hafa í íbúð á fjórðu hæð og í stigagangi fjölbýlishúss við Laugaveg slegið fertugan karlmann eitt högg í kviðinn í íbúðinni, tekið hann hálstaki og dregið hann niður tröppur í stigagangi af fjórðu hæð hússins, eða þar til fórnarlambið tók að blána í framan. Ofan við stigapall á annarri hæð hafi hann síðan losað takið með þeim afleiðingum að fórnarlambið féll niður tröppurnar.

Þá á maðurinn að hafa, þar sem fórnarlambið lá á stigapallinum, sparkað í eða trampað á höfði þess með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut lífshættulega höfuðáverka, höfuðkúpubrot, blæðingu undir höfuðkúpubroti, glóðarauga á vinstra auga auk minni áverka.

Sagðist sjálfur hafa verið „sauðdrukkinn“

Fertugi karlmaðurinn var gestkomandi á heimili hins meinta árásarmanns en þar fór fram samkvæmi umrædda nótt. Óumdeilt var í málinu að fertugi maðurinn var „sauðdrukkinn“, eins og hann lýsti sjálfur, með leiðindi við aðra gesti auk þess sem hann stal úr íbúðinni áfengi og öðrum verðmætum. Þegar vísa átti honum út veitti hann mótspyrnu og fóru þrír menn í verkið. Aðeins einn er þó ákærður fyrir líkamsárásina.

Ákæran er að mestu höfð eftir einum þessara þriggja manna, sem er félagi bæði meinta árásarmannsins og fertuga mannsins. Hann kvaðst fyrir dómi í morgun hafa verið undir áhrifum ofskynjunarlyfja umrædda nótt og áhrif þess hafi gætt við skýrslutökuna. Saksóknari í málinu sagði að í blóði hans hefði mælst kókaín og MDMA, sem er virka efnið í e-töflum. Sjálfur sagðist maðurinn hafa sýrupillur, og skýrði svo að það væru e-töflur með sýru, þ.e. ofskynjunarlyfinu LSD.

Verjandi hins meinta árásarmanns sagði ljóst að sönnunarfærsla eigi að fara fram fyrir dómi en fyrir dómi hafi engin sönnunarfærsla farið fram. Af tuttugu vitnum hafi ekkert þeirra greint frá atburðum á þá vegu sem í ákæru greinir. Þá benti hann á að framburðurinn sem byggt sé á í málinu hafi verið sá eini sem var á þá leið. „Það er ótækt að sakfella vegna mats ákæruvaldsins á breyttum framburði sem áður gekk gegn öðrum. Nú hefur hann sagst hafa verið á sýru og að hann sé geðveikur. Samt á að byggja á þeim framburði,“ sagði Jón Egilsson, verjandi hins meinta árásarmanns.

Greinir á um niðurstöðu réttarmeinafræðings

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sagði sjálfur að veikasti hlekkurinn í málinu væri umrædd hnefahögg í íbúðinni. Það ætti þó ekki að verða til breytinga á ákæru. En þrátt fyrir það og breyttan framburð eigi gögn málsins að duga til sakfellingar. „Það liggur fyrir að framburður [mannsins] var mjög ótrúverðugur fyrir dómnum. Í fyrsta lagi stangast lýsingar hans á við framburð annarra og í öðru lagi var framburður hans hjá lögreglu mjög skýr. Þar var því lýst mjög vel hvað gerðist.“

Lýsing hins meinta árásarmanns á því sem gerðist er á þá leið að fertugi maðurinn hafi barist um og látið ófriðlega þegar hann var leiddur út. Það hafi orðið til þess að hann féll niður marmaratröppur með fyrrgreindum afleiðingum.

Hins vegar skiptir sköpum í málinu far sem sást á andliti fertuga mannsins. Lögregla taldi strax í frumskýrslu að um skófar væri að ræða og í framburði mannsins sem ákæran byggist á kom fram að meintur árásarmaður hafi sparkað eða trampað á höfði mannsins.

Lögregla tók skó meinta árásarmannsins til rannsóknar en aðila máls greinir á um hvort niðurstöður réttarmeinafræðings séu réttar eða ekki.

Réttarmeinafræðingurinn kom fyrir dóminn í dag og staðfesti hún þá niðurstöðu sína að mælingar á rákum í andliti mannsins og skósóla meinta árásarmannsins bendi til þess að um sé að ræða skófar eftir umrædda skó. Saksóknari spurði út í þá staðreynt að millimetra munur væri á rákunum og skófarinu. Skýrði réttarmeinafræðingur það út með því að húðin sé hreyfanleg og því sé farið ekki alveg nákvæmt.

Jón Egilsson sagði lögreglu hafa ímyndað sér það í upphafi að um skófar hafi verið að ræða og þá strax útilokað allt annað. Stigagangurinn hafi ekki verið rannsakaður eða neitt í íbúðinni sem gæti hafa valdið rákunum. „Skófarið passaði svo ekki, ekki fyrr en þeir fóru að tala um að teygt hefði á húðinni.“

Þá hafi verið staðfest fyrir dómi að glóðaraugað hafi ekki komið til vegna höggs heldur af völdum heilablæðingarinnar, sem hann hafi hlotið þegar hann féll niður tröppurnar af sjálfsdáðum.

Þegar meta á hvort ráðist hafi verið á fertuga manninn eða hann dottið sjálfur niður tröppurnar getur skófarið því haft mikla þýðingu. Ef dómurinn telur sannað að meintur árásarmaður hafi sparkað í eða trampað á höfði mannsins eftir að hann féll niður tröppurnar hlýtur það að vera merki um ásetning. Ef það er hins vegar talið ósannað að um skófar sé að ræða verður að segjast, að lítið er þá eftir í málinu.

Virkaði drukkinn en ekki í hættu

Ákæruvaldið krefst þess að meintur árásarmaður verði dæmdur í að minnsta kosti fangelsi til eins og hálfs árs. Þá bæði fyrir árásina og einnig fyrir að flytja fertuga manninn út á gangstétt og skilja við hann þar ósjálfbjarga og lífshættulega slasaðan.

Hvað það varðar að skilja manninn eftir úti á gangstétt eru tveir menn til viðbótar ákærðir, þ.e. maðurinn sem breytti framburði sínum og hinn sem hjálpaði til við að vísa fertuga manninum út. Saksóknari krafðist nokkurra mánaða fangelsis yfir þeim, en að refsingin yrði bundin skilorði.

Verjendur allra mannanna byggðu á því að ekki hefði verið hægt að sjá að maðurinn væri lífshættulega slasaður. Bent var á að þegar hann var fluttur á Landspítala hafi læknar þar ekki einu sinni séð alvarleika áverkana. Hann var fluttur á gjörgæslu en gerð var aðgerð á honum síðar, þegar honum versnaði og ljóst var að um heilablæðingu væri að ræða.

Þá var á það bent að um óreglumann væri að ræða sem drykki þar til hann kæmist í svipað ástand og hann var í á gangstéttinni. Hann hafi ekki verið meðvitundarlaus en vitað mál að hann var mjög drukkinn. Enginn ásetningur hafi því legið að baki því að skilja manninn þarna eftir.

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert