Annþór og Börkur báru sig vel

Annþóri Kristjáni Karlssyni var stillt upp við vegg og haldið …
Annþóri Kristjáni Karlssyni var stillt upp við vegg og haldið þar á meðan farið var með Börk Birgisson inn í dómsalinn. mbl.is

Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson voru leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness í dag og gert að taka afstöðu til ákæru á hendur þeim. Þeir báru sig vel og sögðust saklausir. „Ég gæti ekki verið saklausari,“ sagði Annþór til dæmis. Gríðarleg öryggisgæsla var við dómstólinn.

Meðan á þinghaldinu stóð voru um tíu lögreglumenn inni í dómsalnum. Fyrir utan Héraðsdóm Reykjaness biðu fleiri lögreglumenn á merktum og ómerktum bílum, reiðubúnir til aðstoðar ef þörf væri á.

Ásamt Annþóri og Berki voru fleiri sakborningar mættir en alls voru þeir á annan tug. Miklir fagnaðarfundir urðu með félögunum öllum og hlógu þeir og gerðu að gamni sínu fyrir og meðan á þinghaldinu stóð. Þá settust þeir um stund í hring og réðu ráðum sínum.

Bingó Bjössi kveðst saklaus

Þá var komið að því að Börkur tæki afstöðu til sakarefnanna, en honum er meðal annars gefin að sök stórfelld líkamsárás. Dómari málsins, enn sem komið er, spurði Börk um afstöðu hans og ekki stóð á svarinu. „Ég geng reyndar undir nafninu Bingó Bjössi,“ sagði Börkur og spurði á móti hvort honum væri skylt að svara. Dómarinn hélt það nú. „Ég er náttúrlega saklaus. Því liggur í hlutarins eðli að ég neita sök,“ sagði Börkur þá.

Annþór Kristján sagðist sem fyrr segir ekki geta verið saklausari.

Þegar kom að því að fá afstöðu tvímenninganna til einkaréttakröfu í málinu gekk dómara málsins illa að ná til þeirra. „Hættið nú að vera sniðugir og talið við mig,“ sagði Sveinn Sigurkarlsson. Urðu þeir við því og svaraði Börkur fyrstur: „Ég væri til í að pissa yfir hana, það er mín afstaða.“

Annþór sagðist ekki ætla að greiða umræddum manni krónu enda hefði hann reynt að kúga út úr sér peninga. Heyrðist einn sakborninga þá kalla fram í: „Og nú gerir hann það með hjálp dómstóla.“

Dómari hugi að hæfi sínu

Þá var komið að því að ræða greinargerðaskil. Var farið fram á að frestur yrði veittur fram í miðjan ágúst og á það fallist. Sveinn Sigurkarlsson spurði þá verjanda Barkar hvort sama krafa væri gerð í þessu máli og öðru, þ.e. að dómari víki sæti vegna vanhæfis. Staðfesti verjandinn það og var bókað, að vegna ætlaðs brots Barkar gegn starfsmanni dómstólsins, sem rekið er í öðru máli, geri hann þá kröfu að dómari víki sæti.

Hafði Sveinn áður gert að því skóna að hann myndi víkja sæti í málinu.

Að svo komnu máli var málinu frestað til 16. ágúst nk. Voru þeir Annþór og Börkur handjárnaðir og þeim fylgt út í lögreglubíla umkringdir lögreglumönnum.

Hvernig verður framhaldið?

Í ljósi þess hvernig þinghaldið fór fram í dag er ljóst að meðferð þessa máls fyrir dómstólum á eftir að verða þrautaganga. Sakborningar eru á annan tug og þegar þeir koma saman er erfitt að sjá fyrir sér að friður ríki í dómsal. Einnig má ímynda sér að vitni muni í lengstu lög reyna að forðast það að koma fyrir dóminn enda ekki heiglum hent að sitja undir svörum við þessar aðstæður.

Að því sögðu verður forvitnilegt að sjá hvernig málinu vindur fram í haust og hvaða stefnu það tekur. Það verður alla vega engin lognmolla í og við Héraðsdóm Reykjaness á meðan það verður tekið fyrir.

Börkur Birgisson kemur í réttarsal
Börkur Birgisson kemur í réttarsal mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert