Á síðustu árum hefur gætt óánægju með að ekki gangi betur að eyða launamun kynjanna. Á sama tíma hefur verið bent á að atvinnurekendur skorti oft nauðsynleg tól og tæki til þess að sjá til þess að konur og karlar séu með jöfn laun. Í þeim tilgangi hefur staðall um launajafnrétti þróaður.
Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á fundi um staðal um launajafnrétti í morgun.
Fundurinn er haldinn á vegum ASÍ. SA og velferðarráðuneytisins, sem hafa frá því í árslok 2008 haft forgöngu um gerð staðals um launajafnrétti kynjanna. Nú er frumvarp um jafnlaunastaðal tilbúið til kynningar.
Staðallinn lýtur í öllu alþjóðlegum reglum sem settir eru um staðla, hann er sambærislegur öðrum stöðlum á borð við gæðastaðla og er því vottunarhæfur að öllu leyti.
„Ég vona að allir taki þessu fagnandi og hrindi þessu í notkun,“ sagði Jóhanna.
ASÍ fagnar staðlinum
„Það á að vera sjálfsagt að karlar og konur fái sömu laun fyrir sömu störf,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, á fundinum. Hann sagði að launajafnrétti kynjanna hefði verið baráttumál ASÍ í langan tíma og fagnaði gerð jafnlaunastaðalsins.
Hann sagði staðalinn fyrst og fremst ætlaðan stjórnendum fyrirtækja í því skyni að þeir ættu hægara um vik að greiða körlum og konum sömu laun fyrir sömu störf.
„Atvinnurekendum er auðvitað í sjálfsvald sett hvort þeir nota staðalinn,“ sagði Gylfi. „En við trúum því að það að taka upp staðalinn auki trúverðugleika fyrirtækja.“
Vonast til að munurinn heyri brátt sögunni til
Hann sagðist telja að breið samstaða myndi myndast um að þetta væri tæki sem fyrirtækin myndu vilja nota. „Það skiptir máli að ná þessari samstöðu.“
„Við notkun þessa staðals verða fyrirtæki ekki aðeins að móta sér launastefnu og jafnréttisáætlun, þau verða einnig að setja fyrirtækinu jafnlaunastefnu og viðbrögð við því, sé henni ekki framfylgt,“ sagði Gylfi. „Það er von okkar að þetta tæki verði til þess að kynbundinn launamunur á íslenskum vinnumarkaði heyri sögunni til.“
Brautryðjendastarf
„Íslenski jafnlaunastaðallinn er brautryðjendastarf sem á sér ekkert fordæmi,“ sagði Hannes Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann sagði ávinninginn m.a. felast í ánægðara starfsfólki, betri ímynd fyrirtækisins og að það ætti að falla að heildarmynd framsækinna fyrirtækja.
Hannes sagði að nýjasta könnunin á þessu sviði sýndi að konur hefðu 86% af heildarlaunum karla. „Launamunurinn hefur þó minnkað um helming undanfarinn áratug. Atvinnulífið og opinberir vinnuveitendur liggja gjarnan undir ámæli,“ sagði Hannes.
Hann sagði umræðuna um launamun kynjanna oft ófaglega og að hún færi fljótt í að benda á sökudólga. „Jafnlaunastefnan hefur verið stöðnuð og lent í hjólförum,“ sagði Hannes.
Hann sagði að um væri að ræða merkilegt framtak sem mikil vinna hefði verið lögð í.