Miskabæturnar sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið til að greiða Önnu Kristínu Ólafsdóttur eru tilkomnar vegna yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Skaðabótakröfu Önnu Kristínu var hafnað.
Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur íslenska ríkið til að greiða Önnu Kristínu hálfa milljón króna í miskabætur vegna brots forsætisráðherra á jafnréttislögum. Anna Kristín gerði hins vegar fjárkröfu upp á sextán milljónir króna.
Í niðurstöðu dómsins segir að byggja verði á úrskurði kærunefndar jafnréttismála en niðurstaða nefndarinnar var að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög með því að skipa Arnar Þór Másson í stöðu skrifstofustjóra skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar. Var það vegna þess að ekki var krafist ógildingar úrskurðarins innan málshöfðunarfrests.
Skaðabótakrafa Önnu Kristínar byggðist á núvirðisreikningi mismunar á launum skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu og launum stefnanda í núverandi starfi sínu frá 1. júní 2010 til 31. maí 2015, auk þess sem stefnandi hafi verið án tekna 1. júní 2010 til 17. janúar 2011.
Héraðsdómur hafnaði kröfunni og segir að líta beri til að fimm umsækjendur hafi verið metnir hæfastir til að gegna embættinu, og að Önnu hafi verið raðað neðst þeirra fimm. Dómurinn segir þá að Önnu hafi ekki tekist að sanna að hún hafi átt starfið skilið umfram þá þrjá umsækjendur sem raðað var framar henni í hæfnismatinu, en það voru allt konur.
Krafa Önnu um miskabætur í málinu var byggð á því að forsætisráðherra hefði sýnt henni lítilsvirðingu og niðurlægt hana á opinberum vettvangi, vegið að starfsheiðri hennar, reynslu og hæfni.
Dómurinn segir þá staðreynd að Anna hafi ekki fengið starfið eina og sér ekki geta valdið því að hún eigi rétt til miskabóta. „Hins vegar þykir yfirlýsing sú sem birt var á vef forsætisráðuneytisins í tilefni af úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli stefnanda, þar sem því er meðal annars hafnað að hún hafi verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut og sérstaklega bent á að stefnandi hafi verið fimmti umsækjandi í hæfnismati, ásamt skipun rýnihóps til þess að fara yfir ferli undirbúnings skipunar í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu í kjölfar úrskurðarins, þess eðlis að bitnað gæti á orðspori stefnanda.“
Anna Kristín gerði kröfu um hálfa milljón í miskabætur, taldi dómurinn það hæfilega upphæð og féllst á hana.